141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði auðvitað ekki nægilega skýrt um Hólmsheiði. Það sem mér fannst vera jákvætt við það var að farið yrði í að byggja fangelsi. Ég tek algjörlega undir það sem hv. þm. Árni Johnsen sagði. Ég lít svo á að sú umræða sé töpuð, að búið sé að taka þá ákvörðun. Ég hef verið á þeirri skoðun, eins og hv. þingmaður, að skynsamlegast, ódýrast og hagkvæmast sé að byggja upp á Litla-Hrauni Ég hef haft þá skoðun að hægt sé að byggja þar öryggisfangelsi við hlið hins og ná þannig fram þessum aðskilnaði. Ég blæs á þau rök sem nefnd hafa verið í skýrslum sérfræðinga, hversu langt sé á Litla-Hraun. Það er nákvæmlega jafn langt í báðar áttir. Við þekkjum það mjög vel, við sem búum á landsbyggðinni, að það virðist alltaf vera miklu lengra út á land en til Reykjavíkur þótt nákvæmlega jafnlöng vegalengd sé ekin. Þau rök hafa mér alla tíð þótt vera nokkuð léttvæg. Við þekkjum það sem ökum inn í borgina reglulega hversu langan tíma það tekur. Sá tími mun ekkert styttast þó að farið verði upp á Hólmsheiði þannig að mismunurinn er ekki eins mikill og látið hefur verið í veðri vaka, ég tek alveg undir það.

Varðandi sýslumannsembættið á Selfossi þá er það algjörlega sláandi og gengur ekki og það sjá allir. Þegar hefur verið bent á að þegar lögreglumennirnir eru einungis 24, eins og nú er, hafa þeir ekki getað sinnt grunnþjónustu, þeir hafa þurft að keyra fram hjá slysum. Þetta er að gerast á vakt núverandi ríkisstjórnar, þannig er forgangsröðun hennar. Það er hægt að taka aðrar ákvarðanir. Til þess þarf vilja, það þarf að sýna það í verki með réttri forgangsröðun. Það er ekki gert hér.