141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:17]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér er stórhættulegt. Það er laust í reipunum, það er ómarkvisst, það er tilviljanakennt, háð alls konar geðþóttasveiflum sem ekki eru rök fyrir. Það tekur ekki tillit til stöðu margra mikilvægustu þátta landsins, hvort sem er á sviði heilbrigðiskerfisins, löggæslukerfisins, menntakerfisins að hluta eða margra þátta sem ástæða er til að taka verulega alvarlega við gerð slíks frumvarps, ekki síst tillitsleysið við heimilin í landinu.

Þetta frumvarp er verðbólguhvetjandi. Það er auðvitað mikil hætta fólgin í því. Það er augljóst að þessu frumvarpi, ef fram gengur, fylgja verðlagshækkanir. Það er ekki það sem við þurfum á að halda, það er gegn öllu sem við ættum að miða við þegar við sköpum grundvöll til að byggja á. Þetta kemur fram í svo mörgum þáttum í stjórn landsins í dag, eða öllu heldur stjórnleysi landsins.

Við skulum taka dæmi sem kemur ekki beint fjárlagafrumvarpinu við en sýnir aðferðafræðina. Fyrir um það bil einu ári var samþykkt byggingarreglugerð sem á í rauninni að taka gildi um næstu áramót. Hvað þýðir þessi byggingarreglugerð, ein umfangsmesta reglugerð sem um getur á landinu? Hún þýðir að byggingarkostnaður við íbúðir, virðulegi forseti, mun hækka um 20–25%. Ég ítreka, virðulegi forseti: Byggingarkostnaður samkvæmt þessari byggingarreglugerð mun hækka um 20–25%. Er á það bætandi eins og staðan er? Það eru ótrúlegir þættir í þessari reglugerð sem eru tóm tjara, tóm vitleysa. Það er t.d. miðað við að einangrun húsa verði snaraukin eins og þorri íslenskra húsa sé ekki nógu hlýr í dag. Hvað þýðir aukin einangrun húsa um tugi sentimetra? Það þýðir að íbúðir stækka, bara með tilkomu einangrunarinnar, og fasteignagjöld leggjast á þá stækkun. Rýmið eykst ekki, heldur eykst vinnslukostnaður og framleiðslukostnaður sem fer í byggingarverðið og hækkar byggingarkostnað á húsnæði fyrir fólk um 20–25%.

Danir gerðu fyrir nokkru byggingarreglugerð hjá sér. Það tók þá mörg ár að semja reglugerðina og síðan ætluðu þeir sér sex ár til að gera tilraunir með hana, skoða hana og sjá hvernig hún þróaðist. Nei, íslenska ríkisstjórnin lamdi fram byggingarreglugerð fyrir ári og hún á að taka fullt gildi nú í árslok. Það verður að stöðva þessa reglugerð áður en hún tekur gildi, það verður að skoða þetta mál til hlítar.

(Forseti (ÁÞS): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á því að hér eru til umræðu fjárlög en ekki byggingarreglugerð.)

Virðulegi forseti. Ég er að ræða hlutskipti í gerð fjárlaga. Mér er alveg sama þó að hæstv. forseti sé með hugmyndir í þeim efnum, það verður að tengja saman það sem gert er.

(Forseti (ÁÞS): Forseti vekur athygli á því að hér er til umræðu …)

Það hefur til að mynda, virðulegi forseti, …

(Forseti (ÁÞS): Forseti er að tala og þegar forseti ber í bjöllu ber þingmanni að gera hlé á máli sínu og grípa ekki fram í fyrir forseta. Forseti vekur athygli á því að hér eru til umræðu fjárlög fyrir árið 2013.)

Virðulegi forseti. Hefur viðkomandi þingmaður leyfi til að tala núna?

(Forseti (ÁÞS): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Ég byrjaði ekki að tala aftur fyrr en hæstv. forseti lauk máli sínu að mínu mati. Það kom ágætisöndunarhlé þar á milli. Gott og vel.

Það skiptir miklu máli líka í sambandi við fjárlagafrumvarpið sem við fjöllum um að þar er gert ráð fyrir margs konar hlutum sem koma fólki mjög í opna skjöldu. Við skulum taka sem dæmi grænt hagkerfi. Hvað er grænt hagkerfi? Ég veit að ég á ekki að spyrja hæstv. forseta um hvað grænt hagkerfi er en það væri fróðlegt að forseti gerði kannski athugasemd við það að talað væri um grænt hagkerfi sem er ekki til í reynd. Það er ekki til í útfærslu, það er ekki til í neinum skilningi, en ég má tala um það en ég má ekki tala um hvernig kerfið virkar þegar byggingarkostnaður er hækkaður um 25%. Það er engin smátala fyrir íslenska þjóð og íslenska þegna. Nei, ég má tala um græna hagkerfið, drauminn sem er ekki einu sinni til í hugum neins því að það er engin ráðning til á honum. Ef ég á að ræða það þá er það allt í lagi, en það sýnir bara hringavitleysuna í yfirstjórn kerfisins sem sumir hæstv. menn í stjórn landsins leika núna lausum hala með.

Það er gott dæmi að í fjárlagafrumvarpinu skuli vera keyrt, eins og ég nefndi hér áðan, áfram með þá hugmynd að 800 milljónir fari í byggingu íslensks fræðaseturs. Sú bygging á að kosta, virðulegi forseti, 3,7 milljarða kr. 3,7 milljarðar kr. eru ámóta upphæð og núverandi hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka í veiðigjald af verstöðinni Vestmannaeyjum. Það minnir á að þegar Ísland heyrði undir Danakonung og lítið þýddi að tala um fjárlög Íslands þá voru Vestmannaeyjar kallaðar gullkista Íslands og voru í séreign Danakonungs. Peningar frá Vestmannaeyjum voru á þeim tíma, 19. öld, notaðir til að byggja Konunglega leikhúsið á Kongens Nytorv og byggingar við Nýhöfnina. Þetta er sama gjörð hvor á sínum tíma, annars vegar danski konungurinn, hins vegar hæstv. ríkisstjórn sem er nú að véla með peninga sem eru ekki til skiptanna í þessum efnum. Bygging íslensks fræðaseturs, sem er metnaðarfull hugmynd og stórkostleg á margan hátt, er ekki raunhæf miðað við núverandi aðstæður.

Þetta þarf að hafa í huga, virðulegi forseti, á margan hátt þegar fjallað er um fjárlagafrumvarpið sem nú á að þvinga í gegn. Auðvitað skiptir miklu máli að menn taki upp nýjan hátt í þessu, menn taki upp þann þráð að vinna mál til sátta, ekki bara stóru málin eins og sjávarútvegsmál, rammaáætlun og mörg önnur mál heldur líka smærri mál, vegna þess að með því fyrirkomulagi sem nú er og keyrslu hæstv. ríkisstjórnar er allt í óyndi.