141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðum í dag klappað dálítið sama steininn í þeim skilningi að ég hef verið að vekja athygli á þeim miklu veikleikum sem eru í fjárlagafrumvarpinu. Ég hef gert grein fyrir því að í mjög mörgum tilvikum er það þannig að svo er að sjá sem stjórnarliðið hafi ákveðið að vanáætla útgjöld til ýmissa stofnana og viðfangsefna í fjárlögunum. Það hefur verið gert vitandi vits og í trausti þess að þau mál kæmu síðan ekki til uppgjörs fyrr en eftir kosningar þannig að menn gætu sýnt skárri niðurstöðu í fjárlögunum þegar þau verða samþykkt sem væntanlega gerist núna fyrir áramótin.

Það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur vegna þess að verið er að fela raunverulegan vanda sem við er að glíma og mun auðvitað koma til okkar kasta fyrr eða síðar og undan þeirri ábyrgð verður síðan auðvitað ekki vikist á endanum. Það er alveg sama hvernig menn snúa þeim málum við, ef þannig er gengið frá fjárlögum að fyrirsjáanlegt er að þau duga ekki í einstökum tilvikum fyrir þeim verkefnum og viðfangsefnum sem þeim er gert að sinna, mun koma að skuldadögunum á einhverjum tímapunkti. Þá þurfa menn að horfast í augu við það. Ég hygg að fyrir nýrri ríkisstjórn muni það blasa við að menn verði að fara yfir þá þætti hvern fyrir sig og gera upp við sig hvort ætlunin sé að halda áfram á þeirri braut sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað sem er sú braut að vanáætla vísvitandi fjárveitingar til einstakra liða. Þá þurfa menn að taka afstöðu til þess hvort haldið verði áfram á þeirri braut og viðkomandi stofnanir og viðfangsefni einfaldlega svelt til bana, eins og í rauninni er verið að leggja til í ýmsum verkefnum, eða hvort menn taka upp spurninguna um hvort halda eigi áfram þeirri starfsemi eða leggja hana niður, nú eða þá afla viðbótarfjármagns.

Það er auðvitað verkefni sem bíður nýrra stjórnvalda. Það er ljóst mál að núverandi ríkisstjórn hefur ekki burði, getu, löngun eða vilja til að takast á við það verkefni og það er auðvitað smám saman að verða okkur ljóst. Ég veit að víða um landið, þar sem stofnanir bíða í ofvæni eftir niðurstöðum fjárlagaumræðunnar, binda menn enn þá vonir við að ríkisstjórnin fái einhverja rænu og takist á við verkefnin. Úr því að ekki sér þess stað við 2. umr. muni það mögulega gerast í 3. umr. Í rauninni eru farnar að berast fréttir af óljósum vilyrðum í þá áttina til einstakra stofnana um að kannski muni nú Eyjólfur hressast eitthvað á milli 2. og 3. umr. og þess sé því að vænta að við munum sjá við 3. umr. frekari breytingartillögur í þá veruna. Það er líka þannig að þegar maður skoðar fjárlagagerðina og fjárlagafrumvarpið blasir við manni óskaplega mikið ósamræmi í einstökum fjárveitingum til einstakra verkefna.

Ég ætla að taka eitt dæmi. Þjóðgarðurinn sem kallaður er Vatnajökulsþjóðgarður hefur á síðustu þremur árum fengið samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 1,1 milljarð kr. til ýmiss konar viðfangsefna. Nú geri ég ekki lítið úr þeim verkefnum sem Vatnajökulsþjóðgarður sinnir. Ég geri ekki lítið úr starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég er alveg viss um að starfsemi hans er mikilvæg og hún getur haft þýðingu fyrir náttúru landsins og fyrir ferðaþjónustuna. Hún getur haft þýðingu, og hefur þýðingu, fyrir atvinnustarfsemi í nærliggjandi sveitarfélögum eða sveitarfélögum sem eiga land að eða í Vatnajökulsþjóðgarðinum. Allt eru það örugglega hin bestu og þörfustu verkefni. En hið sama hlýtur þá væntanlega að gilda um annars konar starfsemi, þjóðgarðastarfsemi, sem fer fram annars staðar á landinu.

Þá blasir auðvitað við himinhrópandi mismunur. Ég nefndi Vatnajökulsþjóðgarðinn sem hefur á síðustu þremur árum fengið um 1,1 milljarð kr. Ef við tökum annan þjóðgarð sem dæmi, eldri þjóðgarð sem hefur verið við lýði mun lengur og þá er ég að vísa til þjóðgarðsins á Snæfellsnesi, og skoðum fjárveitingar til þess þjóðgarðar þá blasir mjög skýr mynd við. Hún er einfaldlega sú að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er ekki varið einni einustu krónu til þeirrar starfsemi. Það er eins og menn geri sér í hugarlund að starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðsins þurfi 300–400 millj. á ári til síns rekstrar og fjárfestingar en þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi geti komist af með að fá ekki eina einustu krónu í sinn hlut. Það er auðvitað enn eitt dæmið um hvernig menn eru að reyna að plata sjálfan sig eða öllu heldur að reyna að plata aðra íbúa landsins, okkur þingmenn, til að trúa því að þetta fjárlagafrumvarp muni standast þegar til lengri tíma er litið þótt auðvitað blasi við okkur öllum að svo verði ekki.

Enn eitt dæmi sem ég vil nefna í því sambandi er mál sem talsvert hefur verið rætt í þinginu og eru hinar svokölluðu strandsiglingar. Hæstv. innanríkisráðherra greindi frá því á Alþingi fyrir nokkrum vikum að hugmynd ríkisstjórnarinnar og ákvörðun væri sú að hefja hér strandsiglingar undir merkjum ríkisins á næsta ári. Ætlunin væri að bjóða út þær siglingar og hefja þær einhvern tíma á næsta ári. Þótt við förum í lúsarleit í fjárlagafrumvarpinu og nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sjáum við að það er ekki fimmeyringur ætlaður í það viðfangsefni, ekki fimmeyringur. Samt er hæstv. innanríkisráðherra búinn að segja okkur að um það hafi verið tekin ákvörðun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það liggi sem sagt fyrir niðurstaða og ákvörðun um að hefja þessar strandsiglingar. Það eigi að fara fram útboð en ekki er króna hins vegar lögð í verkefnið þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé búin að ákveða þetta, þrátt fyrir að búið sé í raun og veru að gefa vilyrði fyrir því að útboðið fari fram.

Það er líka dálítið sérkennilegt í ljósi þess að mér er ekki kunnugt um að verið hafi til dæmis lagt á það raunverulegt mat hver áhrifin yrðu af strandsiglingunum þegar þær hefjast. Í fyrsta lagi hafa ekki fengist neinar upplýsingar um hver kostnaðurinn verði við siglingarnar. Það er sagt sem svo að ekki sé gott að gefa þær út vegna þess að það kunni að hafa áhrif á útboðin. Það er auðvitað eitthvað til í því en engu að síður hefði átt að setja þótt ekki væri annað en einhverja málamyndaupphæð inn í fjárlagafrumvarpið, málamyndaupphæð sem þó væri trúverðug og sem hlypi þá að minnsta kosti á einhverjum tugum milljóna og þyrfti örugglega að vera hærri ef hún ætti að nálgast þann kostnað við siglingarnar sem verður örugglega á fyrsta árinu. Það er heldur ekki búið að reikna út hver áhrifin yrðu á flutningskostnað á landsbyggðinni hjá þeim höfnum sem munu njóta strandsiglinganna. Er það þannig að ljóst sé, og hafa menn fært fyrir því rök, að það muni leiða til lækkunar á flutningskostnaði? Ég hefði talið að strandsiglingarnar hlytu að hafa þann tilgang fyrst og fremst að reyna að lækka flutningskostnað út á landsbyggðina.

Við vitum að flutningskostnaður til dæmis hjá mörgum framleiðslufyrirtækjum, ég tala nú ekki um þau framleiðslufyrirtæki sem þurfa bæði að flytja til sín aðföng og síðan flytja frá sér framleidda vöru, er sligandi hár. Á sínum tíma var ákveðið að setja tiltekna upphæð í að greiða niður þann flutningskostnað. Ég fagnaði því og tel að sú leið hafi verið skynsamleg. En liggur fyrir núna að þær strandsiglingar sem er verið að boða muni lækka þann flutningskostnað eða er markmiðið eingöngu að færa flutninginn af vegunum og út á sjó? Það gæti út af fyrir sig verið markmið en ég er hins vegar ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt markmið á öllum stöðum, t.d. á Vestfjörðum er það þannig að vandi vegakerfisins þar er ekki að það sé svo gatslitið af mikilli notkun. Það er miklu frekar hitt að vegakerfið er ekki nægilega vel nýtt vegna þess að um það fer ekki nægilega mikil umferð. Við leysum það ekki með því að færa hluta af umferðinni sem núna er á þeim þjóðvegum út á sjó.

Í öðru lagi er ekki heldur vitað hver áhrifin verði af strandsiglingunum á annan flutningskostnað. Það er til dæmis ljóst mál að ef hluti af umfangi flutningsins núna fer frá landflutningum yfir á strandsiglingar mun það hafa áhrif á getu einstakra fyrirtækja til að standa undir sínum fastakostnaði. Við sjáum af því að það er fjölmörgum spurningum ósvarað um málið í sjálfu sér efnislega en stóra málið í því viðfangi sem við erum að ræða er auðvitað að ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að lagðir séu neinir peningar í það. Þarna er enn eitt dæmið um hvernig menn eru að plata sjálfa sig og reyna að plata aðra í fjárlagafrumvarpinu. (Forseti hringir.) Vandanum er sópað undir teppið og ekki tekið á þeim viðfangsefnum sem þó blasa við hverju einasta mannsbarni.