141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég minntist í örstuttu máli á það í ræðu minni fyrr í kvöld hversu mikið það hefði komið mér á óvart þegar ég las fjárlagafrumvarpið og jafnframt þegar ég fór yfir þær fjölmörgu breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram við fjárlagafrumvarpið að ekki er tekið á þeim vanda sem blasir við löggæslunni. Ég hélt einfaldlega að menn væru orðnir sammála um að gengið hefði verið of nærri löggæslunni í þeim niðurskurði sem fram hefur farið á undanförnum árum hér á landi. Við skoðun á þessu máli og þeim breytingartillögum sem hér liggja frammi birtist manni sú niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna að menn hafi ekki skilið vandann sem blasir við.

Heildarniðurskurður á undanförnum árum á löggæsluhlutanum er á uppreiknuðu verði 2,8 milljarðar samkvæmt skýrslu frá innanríkisráðuneytinu sem var unnin í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Þessar upphæðir hafa verið ræddar í þingsalnum, m.a. af hæstv. innanríkisráðherra. Ef þetta frumvarp fer í gegn eins og það er hér munu koma til enn frekari uppsagnir innan lögreglunnar. Embættin hafa ekki bolmagn til að reka áfram embættin með þeim hætti sem nú er gert. Mér reiknast svo til að til þess að halda óbreyttu ástandi, án þess að frekari uppsagnir þurfi að koma til, þurfi að bæta 300 millj. kr. inn í löggæsluhlutann. Þá er ég bara að tala um að halda embættunum í því horfi sem þau hafa verið í á þessu ári og minni á að niðurskurðurinn í heild hefur verið 2,8 milljarðar.

Mér finnst svolítið undarlegt að menn skuli forgangsraða þannig að þeir ætli ekki að bregðast við þessum vanda heldur leggja það til að hafist verði handa við ýmis verkefni sem reyndar verða ekki kláruð á því fjárlagaári sem þetta fjárlagafrumvarp tekur til, heldur kallar á enn frekari framlög úr ríkissjóði á komandi árum. Það á sem sagt að taka skóflustunguna að ýmsum verkefnum eins og húsi íslenskra fræða en það á ekki að tryggja grundvallarundirstöður samfélagsins eins og lögreglunnar. Af þessu hef ég töluverðar áhyggjur.

Það er kannski ekki jafnspennandi að veita fjármuni á kosningaári í það að styrkja öryggi landsmanna eins og að fá að taka fyrstu skóflustunguna að einhverju húsi. Ég held þó að í huga almennings sé algjörlega ljóst hvort er mikilvægara. Það er algjörlega ljóst að öryggi er það mikilvægasta sem við eigum.

Í fjölmiðlum var í dag rætt um þann raunveruleika sem íslenskir lögreglumenn búa við. Ein helsta sérstaða okkar á Íslandi er að við erum afskaplega friðsöm þjóð, við höfum engan her og lögreglan okkar er ekki vopnuð. Þegar við ferðumst til útlanda og fylgjumst með löggæslumálum þar sjáum við að því er ekki alls staðar svo farið. Víðast hvar sér maður vopnaða lögreglumenn. Við erum hins vegar svo lánsöm að við höfum hingað til búið í þannig samfélagi að þetta hefur ekki þurft.

Það kom fram í dag uppi í háskóla að ýmsir lögreglumenn telja styttast í að við þurfum að bætast í hóp landa þar sem löggæslan er vopnuð. Ég vona sannarlega að við þurfum ekki að fara á þann stað, að við komumst hjá því og náum að halda þessari mikilvægu sérstöðu sem við höfum. Kannski er í huga okkar flestra algjörlega sjálfsagt að þannig sé samfélagið áfram en það er samt ekki þannig í raun. Við þurfum að hlúa að þessu. Við þurfum að bera virðingu fyrir þessu og leggja okkar af mörkum til að þessi sérstaða íslensks samfélags haldist. Hvernig gerum við það? Við gerum það ekki með því að skera það mikið niður til þessara mála að vinna við þær varnir sem hingað til hafa dugað okkur og skilað árangri með öflugum forvörnum fari fyrir lítið. Það verður dýrara fyrir okkur til framtíðar.

Um 80% rekstrarkostnaðar lögreglu koma til vegna starfsmannahalds, 10% vegna reksturs lögreglubifreiða og önnur 10% fara í húsnæði og annað þess háttar. Það er lítið sem hægt er að skera niður til síðasta liðarins, þ.e. húsnæðisins, og þá er augljóst að bara starfsmannahaldið er eftir og bifreiðarnar. Ef ekki verður gripið til þess að koma til móts við þann mikla niðurskurð sem átt hefur sér stað verður afleiðingin sú að lögreglumönnum verður sagt upp störfum og þeir sem eftir verða munu keyra minna.

Síðan eiga mörg embætti við uppsafnaðan halla að etja. Við getum tekið dæmi af embættinu á Selfossi, þar er halli sem kemur til vegna langtímaveikinda starfsmanna. Venjulega hefur kostnaður sem embætti sitja uppi með vegna slíkra aðstæðna fengist greiddur af ráðuneytinu. En þar hefur orðið breyting á og ráðuneytið ætlast til þess að embættið nái að spara á móti. Nú er staðan sú að ef embættið verður fyrir því að einn starfsmanna þess lendir í langtímaveikindum þarf að grípa til þess að skera niður. Eins og ég sagði áðan er ekkert annað í boði en annaðhvort að segja upp einhverjum öðrum starfsmanni eða keyra bifreiðarnar minna, segja upp og fækka bifreiðum í rekstri. Þetta er ekki flókið rekstrardæmi.

Í þessu tilviki, tilviki lögreglunnar í Árnessýslu, er ljóst að í rekstraráætlun embættisins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að segja þurfi upp lögreglumönnum í föstum stöðum og jafnframt starfsfólki á sýsluskrifstofunni sem nú þegar hefur tekið á sig skert starfshlutfall. Af þessu hefur maður auðvitað miklar áhyggjur. Umdæmi sýslumannsins á Selfossi er landfræðilega stórt. Við þekkjum þann mikla fjölda landsmanna og eins erlendra ferðamanna sem leggur leið sína um Suðurland á sumrin og eins á veturna sem hefur þau áhrif að verkefni lögreglunnar á þessu svæði aukast.

Flestallir ferðamenn sem hingað koma leggja leið sína um Suðurland, enda afskaplega fallegt svæði, gullni hringurinn, Landeyjarnar, Vestmannaeyjar o.s.frv. Í ljósi þeirrar umræðu að ferðaþjónustan eigi að fá síaukinn sess í atvinnulífi okkar hljótum við að stefna að því að fjölga ferðamönnum. Og hvað þýðir það? Það hlýtur að þýða aukin verkefni fyrir alla aðila, líka lögregluna. Þetta þarf allt saman að spila saman. Ég vonast til þess að (Forseti hringir.) við náum við þessa umræðu að breyta fjárlögunum vegna þessarar stöðu innan lögreglunnar.