141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir heiðarleg og einlæg svör. Um leið brýni ég hæstv. forseta til að taka þessi mál upp í forsætisnefnd. Það er með eindæmum, það er nýjasta tískuorðið í þessum þingsal, ef ráðherrar ætla ekki að taka þátt í umræðu um fjárlögin og ef þeir ætla ekki að svara þingmönnum þegar þeir eru kallaðir til. Það er alkunna og það þekkjum við sem höfum setið í ríkisstjórn að ráðherrar hafa verið kallaðir til hvort sem er að nóttu sem degi. Ráðherrar hafa brugðist við með því að mæta á staðinn, vera á staðnum, taka þátt í umræðunum og svara þeim spurningum sem til þeirra hefur verið beint.

Ég beini því til hæstv. forseta að þetta verði tekið upp á fundi hjá hæstv. forsætisnefnd til að menn upplýsi þingheim um hvort ætlunin sé að breyta þessu, að þingmenn geti kallað til ráðherra. Ráðherrar verða alla vega að svara kalli löggjafarsamkomunnar þegar þeir eru beðnir um að taka þátt í umræðunni.