141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:54]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 að leggja eigi eina einustu krónu til að styrkja starf og þátt Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæsla Íslands, útvörður Íslands gagnvart öðrum þjóðum, er núna rekin eins og hreppsómagi. Landhelgisgæsla Íslands býr við þær aðstæður að tvö skipa Gæslunnar, Ægir og Týr, eru kengbundin við Faxagarð í Reykjavík. Þór er á sveimi við Ísland tvær vikur í senn eða þar um bil og liggur svo í höfn í eina viku. Á þeim tíma er ekkert skip á miðunum í kringum Ísland til að vakta og verja íslenska hagsmuni.

Þetta er í fyrsta skipti um langt árabil sem svo er málum háttað. 30% af tíma hvers mánaðar er ekkert varðskip á vakt við Ísland. Þetta er grafalvarlegt. Ekki bætir úr að um þessar mundir er fullkomin gæsluflugvél Landhelgisgæslunnar ekki staðsett á Íslandi þegar skammdegið er hvað dimmast. Gæsluflugvél Landhelgisgæslunnar er í Senegal að reyna að kroppa eitthvert fjármagn til rekstrar á þessum stórkostlega mikilvæga þætti í öllu íslenska samfélaginu.

Það má ekki gleymast að öll lög á Íslandi eru háð fjárlögum og þess vegna er ekkert mál sem lýtur sérstaklega að peningum og fjármálastarfsemi þess eðlis að það eigi ekki erindi í umræður um fjárlög. Það hefur til að mynda gríðarlega mikil áhrif ef gengur í garð byggingarreglugerð sem hækkar byggingarkostnað um 20–25%. Það kann að skaffa einhverjar tekjur fyrir ríkissjóð sem léttir gerð fjárlaga en það sem það gerir fyrst og fremst er að það setur fólki stólinn fyrir dyrnar, ekki síst ungu fólki sem vill eignast sitt húsnæði. Þar er alvaran mest vegna þess að með þessu fyrirkomulagi, þessari vanhugsuðu byggingarreglugerð, má ætla að ungt fólk á Íslandi geti ekki um langt árabil reiknað með því að eignast eigið húsnæði. Slíkt er stökkið og þetta kemur auðvitað við fjárlögum Íslands.

Annað dæmi mætti nefna sem skiptir líka máli. Það skiptir máli í gerð fjárlaga Íslands að grunnurinn sé eðlilegur og markviss og gefi færi á því að afla tekna. Um það snýst fjárlagafrumvarpið, að afla tekna til að hægt sé að standa í útgjöldum sem menn vilja leggja höfuðáherslu á.

Við Íslendingar höfum flaskað á því lengi að gæta þess sem við eigum, gæta aðstæðna og verkefna í heimahaga. Við gætum í því tilviki lært af Þjóðverjum sem tryggja það í öllu er lýtur að útboðum til framkvæmda og atvinnu- og tekjusköpunar fyrir þýska ríkið að búta niður stór verkefni þannig að þau lendi í framkvæmdum hjá heimaaðilum. Þetta pössum við ekki upp á. Ég skal nefna eitt dæmi sem er gott að fylgi hér með því að það sýnir að við notum ekki nándar nærri alla möguleika til að tryggja tekjuöflun ríkissjóðs sem ætti að styrkja gerð fjárlaga. Þetta dæmi er frá því fyrir skömmu er Rarik stóð fyrir stóru verkefni á Skagaströnd, Sauðárkróki og Blönduósi upp á 3 milljarða kr. í kaupum á rörum og lagnabúnaði.

Íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð slíks búnaðar, Set á Selfossi, bauð í þetta 3 milljarða verk en það var erfitt fyrir þetta íslenska fyrirtæki, sem þó hefur unnið markvert starf á markaði í Þýskalandi, að keppa við risastór erlend fyrirtæki sem bjóða í slík verk. Af því að verkið var ekki bútað niður fór þetta úr böndunum að mínu mati, mjög alvarlega úr böndunum. Það endaði með því að búnaðurinn, sem er framleiddur á Íslandi ef menn vildu nýta það, var keyptur frá Danmörku og fluttur norður í land fyrir 3 milljarða kr. Hverjir tapa og hverjir græða á þessu? Það mætti fara ofan í saumana á því, en það er alveg klárt að þarna tapar íslenskt fyrirtæki að minnsta kosti 50 ársstörfum sem væru til að tryggja og þétta byggð á Íslandi og tekjuöflun fyrir ríkissjóð til að geta staðið sómasamlega að fleiri þáttum í gerð fjárlaga. Rarik bregst í þessu efni og hugsar ekki um hag Íslendinga.

Það er eitt sem við ættum að huga að í sambandi við gerð fjárlaga á næstu missirum og árum. Svo virðist vera sem það séu margir milliliðir að troðast inn í margs konar viðskipti sem Ísland á í við önnur lönd. Milliliðir sem taka til sín hluta af því fjármagni sem ætti að liggja Íslandsmegin en lendir kannski í flestum tilvikum Evrópusambandsmegin. Þetta eru alvarleg mál sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara.

Virðulegi forseti. 3 milljarða verkefni sem var auðveldlega hægt að stilla þannig upp að íslenskir aðilar gætu sinnt því var sett þannig upp að erlendir aðilar gátu leikið sér að því að knésetja íslenska fyrirtækið. Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Er það þjóðarmetnaður? Er það vel til þess fallið að styrkja byggðina í landinu, skapa aukna atvinnu í gríðarlegu atvinnuleysi? Er þetta til þess fallið að kalla heim til vinnu og lífs á Íslandi þær þúsundir Íslendinga sem hafa flutt erlendis á undanförnum árum? Nei, það er ekki til þess fallið. Þess vegna skiptir máli að hugsa um alla þessa hluti í stóru og smáu og láta hvergi deigan síga.