141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég ætla að minnast á í þessari ræðu. Annars vegar ætla ég að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lauk máli sínu, um ýmis verkefni sem verið er að setja peninga í á fjárlögum, m.a. í breytingartillögum meiri hlutans. Eins og ég hef áður bent á í þessari umræðu er eins og stundum sé til nægur peningur til ýmiss konar verkefna en önnur starfsemi er þess eðlis að það er mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina og meiri hlutann í fjárlaganefnd að finna nokkurt fjármagn til að kosta aðra starfsemi.

Kannski var full þörf á því hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að nefna tískufyrirbærið kynjaða hagstjórn sem er ekki spurning um stóru tölurnar í fjárlagafrumvarpinu en þó er um nokkrar upphæðir að ræða, tugi milljóna hygg ég á hverju ári, sem fara í verkefni sem ganga, eins og hv. þingmaður lýsti, að miklu leyti út á það að sérfræðingar eru ráðnir, annaðhvort tímabundið eða varanlega, inn í ráðuneyti til að búa til skýrslur til að senda hverjir öðrum.

Án þess að ég fari náið út í einstök verkefni af þessu tagi held ég að fullt tilefni sé til að sú umræða sé tekin á þinginu hvort við erum á réttri leið í þessum efnum. Þetta er ákveðið tískufyrirbæri, hygg ég, en það er hins vegar þörf á því að meta hvaða áhrifum og hvaða árangri sú viðleitni sem hefur verið haldið uppi af hálfu núverandi ríkisstjórnar skilar í raun. Hverju hafa verkefnin á sviði kynjaðrar hagstjórnar skilað?

Ég man eftir ýmsum dæmum, ég get nefnt verkefni á vegum umhverfisráðuneytisins í kynjaðri hagstjórn sem fólst í því að kanna hvort karlar eða konur sæktu um veiðikort. Hverju í veröldinni eiga svoleiðis verkefni að skila, með fullri virðingu fyrir vísindamönnum? Ef einhverjir félagsvísindamenn hafa áhuga á að rannsaka þetta geri ég engar athugasemdir við það en mér finnst alveg ástæðulaust að ráðuneytið verji sínum fjármunum í að skoða þetta.

Eða þegar innanríkisráðuneytið, þáverandi samgönguráðuneyti, fór að mæla hvort það væru frekar karlar eða konur sem keyrðu um Héðinsfjarðargöngin og komst að því að karlar voru tíðari gestir í Héðinsfjarðargöngum en konur. Hvað ætla menn svo að gera með niðurstöðuna? Hvaða áhrif hefur þetta? Hver er einhverju bættari að vita þetta?

Ég tek líka dæmi úr allt annarri átt þó að það sé á jaðri þessarar umræðu. Hvaða máli skiptir það fyrir Reykjavíkurborg að vita hvort það eru fleiri karlar eða konur sem fara í sund hjá borginni? Hvaða máli skiptir það? Hvaða ákvarðanir ætla menn að taka sem byggja á þessum forsendum? Svona má lengi halda áfram.

Ég ætla að láta hér staðar numið í þessum efnum en held að full ástæða sé til að fara yfir þetta með gagnrýnu hugarfari. Ég bið hv. þingmenn að skoða það þegar framleidd er hver skýrslan á fætur annarri á grundvelli einhverra svona tískuhugtaka. Það eru til nógir peningar í þetta af því að einhvern veginn nýtur þetta velvildar af hálfu þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn. Hins vegar eru mestu vandræði að halda í lögreglumennina á Húsavík eða Selfossi. Það eru ekki til peningar til að borga þeim laun. Það er mikið umhugsunarefni hvaða forgangsröð birtist í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði svo að nefna eitt sem snertir þessa umræðu með öðrum hætti, spurninguna um það hvaða stuðnings fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nýtur í þinginu. Nú höfum við vissulega rætt þetta fram og til baka. Hins vegar verð ég að vekja athygli hæstv. forseta og annarra hv. þingmanna á því að á þessari stundu virðist allt jafnóljóst um stuðning meiri hluta þingmanna við þetta fjárlagafrumvarp eins og var þegar umræðan hófst hér í síðari hluta síðustu viku. Einföld talning á fimmtudaginn í síðustu viku gaf til kynna að fjárlagafrumvarpið nyti ekki meirihlutastuðnings og ekkert sem komið hefur fram í þessari umræðu í millitíðinni gefur tilefni til að ætla að breyting hafi orðið þar á.

Eins og við vitum er núverandi ríkisstjórn nokkurs konar minnihlutastjórn. Stjórnarflokkarnir hafa eins og sakir standa 31 þingmann af 63. Einn þingmaður, sem nú er utan flokka en hefur gengið til liðs við flokk sem kallar sig Bjarta framtíð, hefur lýst því yfir að hann muni verja ríkisstjórnina vantrausti, en að sama skapi hefur komið fram af hálfu hans og félaga hans í Bjartri framtíð, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sem einnig er tæknilega séð utan flokka hér á þingi, að þeir styðji ekki forsendur fjárlagafrumvarpsins. Upphaflega mátti skilja af fréttum að þeir styddu ekki fjárlagafrumvarpið en síðan virtist það einhvern veginn þrengjast við það að þeir styddu ekki þær tekjuforsendur sem byggðu á hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Við vitum ekki á þessari stundu hvort það eru bara þessar tekjuforsendur sem ekki njóta stuðnings í þinginu eða hvort það er fjárlagafrumvarpið sjálft. En styðji menn ekki mikilvægar tekjuforsendur er grundvöllurinn fyrir frumvarpinu sem slíku brostinn.

Hv. þm. Þór Saari flutti ræðu af hálfu Hreyfingarinnar snemma í umræðunni og ekki var á þeirri einu ræðu þingmanna Hreyfingarinnar að heyra að úr þeirri átt væri að vænta stuðnings við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ekkert í máli hans benti til þess. Hann var að vanda gagnrýninn á allt og alla, þar á meðal ríkisstjórnina og fjárlagafrumvarpið, og það var ekkert í máli hans sem gaf tilefni til að ætla að ríkisstjórnin ætti von á stuðningi úr þeirri átt. Án þess að ég nefni nein nöfn hefur komið fram af hálfu að minnsta kosti eins þingmanns úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að hann hefur miklar efasemdir um marga þætti í þessu fjárlagafrumvarpi og fer þá að saxast nokkuð á stuðningslið ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Af hverju tek ég þetta sérstaklega til umræðu hér? Það vakti athygli mína að lesa frétt á vef Morgunblaðsins í kvöld þar sem fram kom að hæstv. atvinnuvegaráðherra hefði tekið til sín aftur frumvarp um fiskveiðistjórn á þeim grundvelli að ekki væri stuðningur við það í stjórnarflokkunum og ekki átti hann von á stuðningi úr stjórnarandstöðunni við það frumvarp. Það liggur með öðrum orðum ekki í augum uppi hver afdrif þess máls verða á næstu vikum. Hið eina sem við vitum er að ráðherrann hefur frestað því um óákveðinn tíma að leggja þetta mál fyrir þingið þó að einhvers konar samþykki með fyrirvörum hafi verið fengið í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna. Það leiddi hugann eðlilega að því hvort það fjárlagafrumvarp sem við erum að ræða við 2. umr. nyti þessa stuðnings.

Nú er ekki víst að í atkvæðagreiðslu við 2. umr. komi nákvæmlega fram hvernig línur liggi í því, enda geta þá komið fram mismunandi niðurstöður í atkvæðagreiðslum um einstakar greinar og einstakar breytingartillögur, en þetta er óneitanlega umhugsunarefni. Ég vek athygli á þessu vegna þess að á þeim tíma sem umræðan hefur staðið hefur ekkert orðið til þess að skýra þessa mynd og ekkert komið fram hér við umræðuna eða á opinberum vettvangi sem gefur okkur til kynna að frumvarpið njóti meiri stuðnings nú en þegar það kom fram fyrst. Þá var ljóst að það studdist við minni hluta í þinginu, 30–31 þingmann, og má segja að að því leyti skapi þessi skortur á stuðningi við frumvarpið meiri óvissu um afdrif þess en hvort umræðan hér (Forseti hringir.) stendur klukkutímanum lengur eða skemur.