141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðunni hefur aðeins verið vikið að því merkilega fyrirbrigði sem hefur einkennt fjárlagafrumvörp ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili, þ.e. því sem menn hafa kallað hina kynjuðu hagstjórn, sem hefur birst með dálítið sérkennilegum hætti. Annars vegar er gert ráð fyrir því í öllum ráðuneytum að tilteknu fjármagni, nokkrum tugum milljóna kr. á ári, sé varið til þess sem menn hafa nefnt þessu nafni, kynjuð hagstjórn, og hefur haft það meginmarkmið að reyna að stuðla að því að jafna hlut kynjanna, stuðla að því að fjárlagagerðin taki meira tillit til hagsmuna kvenna en gert hefði verið. Það er út af fyrir sig áhugavert markmið og sjálfsagt að hafa það í huga. Síðan hefur veruleikinn birst okkur í því að þessu er alveg þveröfugt farið þegar kemur að því að setja niður hinar stóru fjárlagatölur. Ég rakti það áðan hvernig þetta hefði verið að birtast í niðurskurði á ýmsum þáttum sem sérstaklega hafa beinst gegn konum. Frægasta dæmið er niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu. Það var upplýst hérna fyrir ári síðan í svari við fyrirspurn að sá niðurskurður hefði komið harkalega niður á konum, sérstaklega harkalega niður á konum á landsbyggðinni. Við sjáum að hreint uppnám er núna í einni stærstu og fjölmennustu kvennastétt landsins sem starfar á vegum ríkisins, þ.e. hjúkrunarfræðinga, og það mál sem verið er að takast á um, meðal annars inni á Landspítalanum, er algjörlega óleyst.

Á sama tíma er verið að kynna til sögunnar alls konar verkefni sem ráðuneytunum er ætlað að framkvæma sem menn hafa kallað hina kynjuðu hagstjórn og birtist í því að gerðar eru athuganir og rannsóknir á öllum mögulegum sviðum sem hægt er að heimfæra undir það hugtak. Athygli var vakin á því hér að gerð væri rannsókn á áhrifum Héðinsfjarðarganga á starfsmöguleika kvenna á áhrifasvæði ganganna og spurt þeirrar spurningar hverju það mundi breyta. Hvað ætla menn að læra af því? Göngin eru komin, þau hafa tiltekin áhrif sem ég veit svo sem ekki nákvæmlega hver eru þegar þau eru skoðuð með kynjagleraugum, en síðan kemur væntanlega einhver niðurstaða úr þeirri athugun. Hvernig ætla menn að bregðast við?

Þegar ég hlustaði á þá ræðu fyrr í kvöld rifjaðist upp fyrir mér saga sem Guðmundur J. Guðmundsson heitinn, fyrrverandi alþingismaður og fyrrverandi formaður Dagsbrúnar, sagði stundum í gamansömum tóni. Merkir félagsfræðingar voru fengnir til þess verks á sínum tíma að gera könnun á starfsháttum og lífsháttum Dagsbrúnarverkamanna. Meginniðurstaðan, sagði Guðmundur, af þeirri rannsókn var sú, sem þótti nokkrum tíðindum sæta, þegar félagsfræðingarnir höfðu rannsakað mjög vel lífshætti Dagsbrúnarverkamanna komust þeir að þeirri óhrekjanlegu niðurstöðu að langflestir verkamenn innan Dagsbrúnar borðuðu kvöldmatinn sinn um sjöleytið. (Gripið fram í: Já.) Það þóttu ekki mikil tíðindi á þeim bæ, en þetta er svona til marks um það að menn geta dundað sér við eitt og annað þegar kemur að slíkum rannsóknum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að einu máli sem ég var aðeins búinn að minnast á fyrr í kvöld, þ.e. það sem merkt er í fjárlagatillögunum arðgreiðslur og sala á fjármálastofnunum, sem gert er ráð fyrir að eigi að færa ríkissjóði í tekjur marga milljarða kr. og gert er ráð fyrir því raunar að með auknum arðgreiðslum muni sú tala hækka milli 1. og 2. umr. Ég ætla í þessari ræðu að víkja sérstaklega að stöðu fyrirtækisins Íslandspósts, sem gert er ráð fyrir að muni eins og hann hefur verið látinn gera á undanförnum árum greiða arð til ríkisins af tekjum sínum.

Íslandspóstur er mjög mikilvægt fyrirtæki. Það hefur axlað ábyrgð á því sem kallað er alþjónusta, þ.e. fyrirtækinu ber að sinna póstþjónustu allt í kringum landið og dreifa pósti fimm daga vikunnar. Fyrirtækinu hefur farist það í meginatriðum mjög vel úr hendi sem við sjáum best á því að hér um bil allir Íslendingar fá póst til sín fimm daga vikunnar sem er í samanburði við margar aðrar þjóðir, sem þó búa ekki í eins strjálbýlu landi og við, heilmikið afrek. Pósturinn hefur hins vegar verið að ganga í gegnum býsna miklar breytingar. Það kemur fram til dæmis í fjarskiptaáætlun sem nýlega er búið að samþykkja á Alþingi að heildarfjöldi áritaðra bréfa sem voru borin út árið 2006 var um 60 þúsund en á árinu 2010 voru bréfin komin niður í 45 þúsund og fer stöðugt fækkandi. Með öðrum orðum, tekjugrunnur fyrirtækisins, þessa mikilvæga fyrirtækis, er smám saman að veikjast.

Það hefur líka komið fram í afkomu fyrirtækisins, þó að fyrirtækið hafi gripið til margs konar hagræðingaraðgerða sem margar hverjar hafa verið býsna umdeildar, að ekki hefur verið hægt að bregðast við þeirri lækkun á tekjum með sambærilegri lækkun á útgjöldum, meðal annars vegna þess að fyrirtækið hefur á sér þessa alþjónustukvöð sem er síðan varin með því að fyrirtækinu er afhentur einkaréttur á dreifingu á bréfum undir 50 grömmum. Þessi einkaréttarþjónusta er hins vegar þannig verðlögð í dag þrátt fyrir allt að hún stendur ekki undir kostnaði og fyrirtækið þarf þess vegna að standa að hluta til undir þeim kostnaði með samkeppnisstarfsemi sinni. Og það dugir heldur ekki til vegna þess að fyrirtækið er auðvitað agað af samkeppninni á því sviði og getur ekki leyft sér að velta kostnaðarhækkunum sem eru til komnar meðal annars vegna annarrar þjónustu út í samkeppnishluta sinn. Það mundi einfaldlega leiða til þess að keppinautarnir gætu náð í stærri hluta af þeirri köku.

Á árinu 2011 var 144 millj. kr. tap á rekstri Íslandspósts. Ég ætla svo sem ekki að gerast spámaður um reksturinn á þessu ári en það er ljóst að miðað við forsendur um minnkandi tekjur hlýtur reksturinn að geta orðið býsna erfiður á yfirstandandi ári.

Engu að síður var gert ráð fyrir því á árinu 2011 að fyrirtækið ætti að borga arð til ríkisins upp á 80 millj. kr. sem er mjög undarlegt í ljósi þessarar veiku og erfiðu rekstrarstöðu fyrirtækisins. Enn er haldið áfram. Gert er ráð fyrir arðgreiðslum fyrir yfirstandandi ár, 2012. Að vísu er gert ráð fyrir því í breytingartillögum meiri hlutans núna að þær arðgreiðslur lækki um 10 millj. kr. frá upphaflegum áætlunum, sem er auðvitað viðurkenning á því að ekki sé mjög skynsamlegt að leggja arðgreiðslur á fyrirtækið á sama tíma og það tapar peningum.

Þetta sýnir hins vegar eitt með öðru enn og aftur það sem ég hef verið að reyna að leggja áherslu á hversu menn eru ótrúlega blindir þegar kemur að því að afgreiða fjárlagafrumvarpið. Menn virðast ekki vilja horfast í augu við staðreyndir og virðast ekki vilja viðurkenna það að aðstæðurnar kunna að vera að breytast og það sem menn ætluðu sér upphaflega í arðgreiðslum, til dæmis frá umræddu fyrirtæki, hljóti menn að þurfa að endurskoða.

Það er ekki þannig eins og menn virðast tala um í þessu sambandi að arðgreiðslur sem fyrirtæki þurfa að borga komi hvergi nokkurs staðar við. Arðgreiðslur sem fyrirtæki borga, hvort sem það eru fjármálafyrirtæki eins og Landsbanki Íslands sem á núna að greiða út verulegan arð, munu auðvitað hafa áhrif á rekstur þeirra. Það mun gera það að verkum að fyrirtæki verða einhvern veginn að mæta því. Annars vegar getur það gerst, þar sem það á við, að hagnaður minnki ef hagnaður er til staðar, sem til lengri tíma litið veikir fyrirtækið. Hins vegar að fyrirtækið þurfi að bregðast við með einhverjum hagræðingaraðgerðum til dæmis með því að fækka fólki. Við höfum séð að ýmis ríkisfyrirtæki sem hafa verið í slíkri stöðu hafa verið að gera það og hefur það þá sérstaklega bitnað á konum eins og ég hef farið yfir áður og er auðvitað í algjöru ósamræmi við hugmyndir manna um hina kynjuðu hagstjórn.

Þetta verða menn allt saman að hafa í huga. Þess vegna tel ég það mjög gagnrýnisvert að láta sér detta í hug að fara að heimta arð af fyrirtækjum sem eru í þeirri stöðu að þar er taprekstur, sem eru í þeirri stöðu að rekstrarumhverfi þeirra er mjög erfitt, eins og á við um Íslandspóst. Arðgreiðslukrafa á hendur því fyrirtæki mun hafa það í för með sér að fyrirtækið verður að grípa til harðari hagræðingaraðgerða en það hefur þegar gert, sem mun gera það að verkum að þjónustustig þess mun lækka. Menn verða einfaldlega að láta enda ná saman. Það er sérkennilegt (Forseti hringir.) að hugsa til þess að ríkisstjórnin ætli sér sérstaklega að (Forseti hringir.) stuðla að slíku og draga þar með úr þjónustustigi sem það mikilvæga fyrirtæki hefur getað veitt.