141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég les það út úr frumvarpi til fjárlaga 2013, sem við ræðum hér, að skuldir ríkissjóðs eru miklar og hefur það svo sem verið margrætt í þingsal. Þess vegna kemur mér talsvert á óvart að sjá það frumvarp sem hér liggur fyrir og lýst hefur verið af hálfu annars foringja ríkisstjórnarinnar sem besta frumvarpi sem fram hafi komið í langan tíma. Menn hafa á undanförnum þrem árum reynt að halda sig við þá stefnu að skera niður og fylgja ákveðinni stefnu til að reyna að ná tökum á rekstri ríkissjóðs og halda sig við þau markmið stjórnvalda að hafa hallalausan ríkissjóð árið 2014.

Ekki eru allir sammála um hvað best er að gera og hvað ekki, en þegar menn ætla að reyna að ná tökum á rekstri ríkissjóðs teldi ég rétt að reyna að greiða niður skuldir. Ég gerði ráð fyrir því að ég mundi sjá slíkar áherslur í frumvarpinu. Jafnframt taldi ég að við mundum sjá að reynt yrði að takast á við þann mikla vanda sem blasir við löggæslunni í ljósi þess gríðarlega niðurskurðar sem orðið hefur í þeim málaflokki á undanförnum árum. Alls er niðurskurðurinn um 2,8 milljarðar, uppreiknað.

Slíkt er hins vegar ekki að finna, hvorki í frumvarpinu sjálfu né í þeim breytingartillögum sem koma nú til skoðunar við 2. umr. fjárlaga. Sá hluti kemur mér mjög á óvart því að ég hélt að það væri almennt skilningur þingmanna í þingsal að of langt hefði verið gengið í þeim efnum og að ekki yrði hægt að horfa upp á að embættið þyrfti að skera niður eða fækka starfsmönnum eða takast á við rekstrarvandann með því að segja upp lögreglumönnum frá og með næstu áramótum. En miðað við stefnu ríkisstjórnarflokkanna sem blasir við hér verður raunin sú.

Hallarekstur ríkissjóðs er enn of mikill og þær áætlanir sem gerðar hafa verið um bata í þeim efnum hafa ekki gengið eftir. Ríkisstjórnin hækkaði hér skatta mjög mikið, hún lagði gríðarlegar álögur á ýmsar atvinnugreinar sem og einstaklinga og við þekkjum umræðuna um veiðigjaldið. Í frumvarpinu er farið fram með þá stefnu að þeir fjármunir sem innheimtast í gegnum veiðigjaldið skuli fara í ákveðin verkefni sem menn kalla fjárfestingaráætlun í þeim breytingartillögum sem til umræðu eru.

Mig langar til að varpa þeirri spurningu fram hvort það hafi aldrei komið til álita af hálfu þeirra sem standa að málinu að þessir fjármunir færu til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Kom það aldrei til skoðunar við umræðurnar í nefndinni eða við þær umræður sem fram fara í reykfylltum bakherbergjum þeirra sem um málið véla? Ég hef velt því talsvert fyrir mér. Ég hef áhyggjur af því að hér sé lagður fram listi af málum og tekin fyrstu skrefin að ýmsum framkvæmdum og verkefnum sem ljóst er að munu kosta mikla fjármuni á næstu árum. Þau verkefni sem lagt er upp með og birtast okkur aðallega í breytingartillögum ríkisstjórnarflokkanna kalla á útgjöld í framtíðinni ef menn ætla sér að klára þau en ekki láta standa hér hálfbyggð hús o.s.frv.

Hefði ég smíðað þessi fjárlög sjálf hefði ég talið rétt að leggja áherslu á að greiða niður skuldir ríkissjóðs, í ljósi þess sem gerst hefur hér, sem og að tryggja þær undirstöður samfélags okkar sem veikst hafa vegna of mikils niðurskurðar á undanförnum árum. Ég nefni þar sem dæmi, og nefndi það í ræðu minni fyrr í kvöld, málefni löggæslunnar. Ég kalla eftir svörum við fyrri spurningum mínum um hvers vegna ekki komi breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar um að taka á vanda lögreglunnar.

Ég tel það of langt gengið að segja upp fjórum lögreglumönnum í viðbót í lögregluumdæminu í Árnessýslu. Ég tel að þar séum við komin langt út fyrir þau mörk sem eðlileg teljast til að hægt sé að sinna þeim verkefnum sem lögreglunni ber að sinna á því svæði og til að tryggja öryggisstig, bæði fyrir íbúa sýslunnar og þá lögreglumenn sem sinna störfum sínum þar.

Ég minntist í örstuttu máli á það fyrr í kvöld að við eigum mikil verðmæti í okkar litla samfélagi. Sérstaða okkar er sú að hér er lítið og öruggt samfélag í mjög friðsamlegu umhverfi, sem betur fer. Þeir erlendu gestir sem sækja okkur heim tala um hversu mikil sérstaða sé fólgin í því að Ísland sé herlaust land og að lögreglan sinni störfum sínum með mikilli friðsemd og án vopna. Það vekur athygli allra þeirra erlendu gesta sem ég hef hitt sem rætt hafa þessi mál við mig. Það er sérstaða sem við skulum reyna að halda í í lengstu lög, en svo það sé hægt verðum við að tryggja lögreglunni góð starfsskilyrði þannig að hún geti sinnt verkefnum sínum og grunnþjónustu. Löggæslan er jú grundvallarþáttur í því að halda samfélagi okkar í því góða horfi sem það hefur verið í.

Herra forseti. Við sjáum það í fjárlagafrumvarpinu og sérstaklega í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það er gríðarlega mikill skoðanamunur á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um það hvert stefnt skuli í ríkisfjármálum. Það kemur mér svolítið á óvart í ljósi alls þess sem sagt hefur verið, í ljósi þess hvernig umræðan var fyrir síðustu alþingiskosningar, að hér skuli birtast okkur fjárlagafrumvarp sem felur í sér jafnaugljós kosningatrix og raun ber vitni.

Herra forseti. Var það þá ætlunin allt þetta kjörtímabil að haga málum þeim hætti, að á lokaári þessarar ríkisstjórnar mundu menn leyfa sér að koma fram með kosningafjárlög? Var það planið allan tímann?