141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[03:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga 2013 við 2. umr. Mig langar að gera að umtalsefni fjársýsluskatt sem fram kemur í ritinu Stefna og horfur sem lagt var fram með frumvarpi til fjárlaga. Það eru gerðar ákveðnar breytingar á fjársýsluskattinum vegna þess að eins og hann var lagður fram skilar hann ekki að mati ríkisstjórnarinnar tilætluðum árangri. Ætlunin með fjársýsluskattinum var kannski fyrst og síðast sú að efna til hógværðar við launaákvarðanir og með því að setja þrep á fjársýsluskattinn er störfum sem bera lægri laun hlíft því að þau eru gerð hlutfallslega ódýrari fyrir vinnuveitendur.

Í tekjuhlið þessa fjárlagafrumvarp er gert ráð fyrir því að skattur, fjársýsluskatturinn sem lagður er á launagreiðslu fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga, verði hækkaðar úr 5,45 í 6,75% þannig að skattlagning er oft leið hæstv. ríkisstjórnar til að ná í tekjur. Það virðist hvergi í fjárlagafrumvarpinu örla á því að möguleiki sé á að stækka skattstofninn til að auka tekjur í samfélaginu heldur hækka menn sífellt skatta og bæta á sköttum á skatta ofan.

Hluti af því sem á að skapa tekjur í ríkissjóð eru vörugjöld á matvæli þar sem breytingar voru gerðar á vörugjöldum á tilteknum matvælum með hátt sykurinnihald árunum 2007 og aftur 2009. Síðan er það endurskoðað og gjöldin samræmd til að fella þau betur að þeim markmiðum sem eru að baki, sem væntanlega eru manneldismarkmið. Ég velti fyrir mér af hverju ekki sé lögð sú kvöð á þá sem framleiða vöru að í henni sé tilgreint sykurinnihald þannig neytandinn sem slíkur sé meðvitaður um sykurinnihald í vörunni, í stað þess að hækka vörugjöld á matvæli sem hafa að geyma sykurmagn. Ég nefni sem dæmi gosdrykki. Ég er ekki viss um að gosdrykkjaþamb þjóðarinnar hafi minnkað þrátt fyrir að vörugjöld á sykri hafi hækkað. Ef meiningin er að ná fram manneldismarkmiðum væri skynsamlegra að fjármunum væri eytt í að merkja vöruna þannig að hún væri til varnaðar fyrir þá sem hennar neyta.

Það er í raun og veru sama hvar maður ber niður, því meira sem maður kannar og fer ofan í saumana á hverjum lið í fjárlagafrumvarpinu því fjarlægari verður maður því, ef það var hægt umfram það sem var í upphafi. Stundum gerir maður sér ýmislegt til gamans. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fór hér mikinn í umræðunni í morgun og taldi að tilburðir stjórnarandstöðunnar í tengslum við umræðuna um fjárlögin hefðu náð, eins og hann kallaði það, nýjum lendum. Hann sagði eitthvað í þá veru að það væri án fordæma og leyfði hann sér að fullyrða að fjárlagafrumvarpið væri þannig tekið í gíslingu með málþófi og það væri enn verra ef það væri gert til að trufla störf þingsins og tefja fyrir öðrum óskyldum málum. Eitthvað í þá veru sagði hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í morgun.

Það hefur nefnilega komið í ljós að minni hæstv. ráðherra er farið að förlast vegna þess að árið 1991 þegar hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, var í stjórnarandstöðu komst fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, það var þá reyndar til 3. umr., ekki til 3. og síðustu umræðu á Alþingi 20. desember eins og stefnt hafði verið að vegna andstöðu bæði stjórnarliða og stjórnarandstöðu. Þannig að hið fordæmalausa sem hæstv. ráðherra nefndi í morgun er að því er virðist ekki svo og má tengja það því þegar hann sat sjálfur í stjórnarandstöðu árið 1991. Menn telja stundum að þeir geti slegið sér upp á alhæfingum og fyrir þeim er engin innstæða.

Enn og aftur er ljóst að frumvarpið sem við ræðum kallar á hækkun skulda ríkissjóðs. Það kallar á hækkun skatta og vörugjalda sem hefur í för með sér hækkun á húsnæðislánum þorra fólks í landinu.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið skynsamlegra að fara aðra leið. Að horfast í augu við þann vanda sem við er að glíma, sameinast um að taka á honum, greiða niður skuldir ríkissjóðs og lækka vaxtagjöldin í stað þess að auka þennan þátt. Horfa til þess að ef tekst að selja eignir verði þeir fjármunir nýttir til að greiða niður skuldir. Ef tekst að innheimta arð af fyrirtækjum verði hann líka settur í að greiða niður skuldir í stað þess að setja hann í rekstur og gæluverkefni komandi kosningavetrar.

Virðulegur forseti. Það ætti kannski að vera leiðarljós okkar inn í umræðuna sem verður væntanlega í fjárlaganefndinni á milli 2. og 3. umr. Hugsanlega er þá hægt að breyta frumvarpinu í þá veru sem við mörg höfum talað um.

Mig langar að lokum að nefna að hér hefur nokkrum sinnum verið rætt að við sem tölum í umræðunni höfum ekki lagt fram neinar tillögur til breytinga á frumvarpinu. Mig langar að benda á í því sambandi að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur tvisvar ef ekki þrisvar á þessu kjörtímabili lagt fram ítarlegar tillögur án þess að hafa fengið þær ræddar og án þess að mið hafi verið tekið af þeim á nokkurn hátt. Það er sýnilegt í mörgum öðrum stórum málum sem hér eru til umræðu að það er enginn vilji hjá stjórnarliðum til að hlusta á röksemdafærslur eða tillögur stjórnarandstöðunnar. Þar af leiðandi veltir maður því fyrir sér af hverju fólk ætti þá að setjast niður og verja tíma sínum í slíkar breytingartillögur sem svo fást ekki ræddar, hvað þá að tekið sé tillit til þeirra. Það er stundum ódýr sending stjórnarliða til okkar að spyrja: Hvað ætlið þið að gera og hvað viljið þið leggja til?

Ég ítreka enn og aftur þann ótta sem ég ber í brjósti varðandi fjárfestingaráætlunina sem liggur fyrir frá 2013–2015. Fjárfestingaráætlun sem kallar oftar en ekki á og fylgir í kjölfarið ef af verða aukinn rekstur og aukin umsvif ríkissjóðs. Það er ekki fjárfesting sem skilar sér þannig að hún dragi úr útgjöldum ríkissjóðs. Hún hvetur til og eykur umsvif og útgjöld ríkissjóðs. Slíkar fjárfestingar geta ekki til langtíma litið verið til hagsbóta, hvorki fyrir ríkissjóð né heldur fólkið í landinu.