141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er freistandi eftir að hafa hlustað á þessa eldræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um menntamálin, um háskólana, að halda áfram þar sem frá var horfið í hans ræðu, en ég ætla að fara betur yfir menntamálin í næstu ræðu minni. Af nógu er að taka þar og ömurlegt að horfa upp á hversu ríkisstjórnin hefur lítt forgangsraðað í þágu menntunar, rannsókna og vísinda. Þetta er ekkert annað en eitthvert tutl sem sett er inn á því sviði í breytingartillögunum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir því að fjárfesting í menntun, rannsóknum og vísindum er einmitt fjárfesting í því að fá hagvöxt fyrr en síðar. Ekki hefur viðleitni ríkisstjórnarinnar verið mikil í þeim efnum, en gott og vel, ég mun bíða með umræðu um menntamál, rannsóknir og vísindi þar til í næstu ræðu minni.

Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið varðandi innanríkisráðuneytið. Það er sama hvernig ég fletti í gegnum fjárlagafrumvarpið og tillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar, ég finn hvergi neitt um uppbyggingu löggæslunnar. Það er rétt að spyrja eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði svo vel áðan í sinni ræðu: Er þetta lokasvar frá ríkisstjórninni? Við vitum öll vel að meiri hluti fjárlaganefndar hreyfir sig ekki hér. Innan nefndarinnar eru hlaupadrengir eins og innan þingsins til að þjóna ráðherrum ríkisstjórnarinnar og stefnu hennar. Þess vegna spyr maður: Ætlar hæstv. innanríkisráðherra virkilega að láta það yfir sig ganga að þetta verði lokasvar ríkisstjórnarinnar varðandi löggæsluna og lögreglumálin vítt og breitt um landið, bæði á suðvesturhorninu og úti á landsbyggðinni?

Hver er krafa fólksins í landinu? Fólkið í landinu er ekkert sérstaklega að spá í skipulag lögreglunnar. Við gerum það á þingi og eðlilega lögreglan sjálf. Það sem fólkið vill er sýnileg löggæsla, að lögreglumenn hafi svigrúm og tækifæri til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru lögum samkvæmt falin. Það hefur margoft komið fram að þeir geta það ekki í dag, það er ekki fjármagn til þess út af þeirri röngu forgangsröðun sem ríkisstjórn Íslands beitir sér fyrir, í litlum málum upp í stór mál, eins og ég hef nefnt áður. Sum lítil mál sem greinilega eru stórmál í huga hæstv. innanríkisráðherra eins og happdrættisstofa. Við erum að tala um alls konar verkefni; grænkun fyrirtækja, netríkið Ísland og fleiri — allt örugglega ágætismál ef við ættum bara sæg af peningum og þyrftum ekki að hugsa um stöðu ríkissjóðs. Það verður að forgangsraða og þora að segja það.

Þess vegna finnst mér sárt að sjá að í tillögum meiri hluta þingsins hefur innanríkisráðherra ekki verið veittur nægur stuðningur, hvað þá skilningur. Þess vegna ítreka ég og lýsi yfir miklum áhyggjum mínum varðandi þessa nýju tísku hjá ríkisstjórninni sem beitir sér nú fyrir því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands taki ekki þátt í umræðunni. Það er búið að lýsa því yfir af hálfu hæstv. forseta að fagráðherrarnir ætli ekki að ræða við okkur. Það lengir heldur betur umræðuna því að við fáum engin svör og þess vegna hlaðast upp spurningar til ríkisstjórnarinnar og til stjórnarmeirihlutans. Hv. þm. Magnús Orri Schram lét sjá sig hér eitt augnablik, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, ég hefði gjarnan viljað spyrja hann út í málefni St. Jósefsspítala því að hann er í hans kjördæmi og hv. þingmaður á að huga að því hvernig hann sjái fyrir sér uppbyggingu á St. Jósefsspítala, hvernig hann sjái 6. gr. heimildinni beitt, en hér hverfa menn bara. Hér svara menn ekki neinu, svara engum vangaveltum hvort sem er um smærri mál eða hina stóru mynd sem menn hafa ítrekað bent á að hafi þýðingu fyrir heimilin í landinu, eins og m.a. hvernig auknar álögur á heimilin þýða auðvitað hækkun lána og hækkun á greiðslubyrði fjölskyldna og fyrirtækja.

En áfram með löggæslumálin. Mér finnst sárt að sjá að lítið sem ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra áhyggna og vangaveltna af hálfu hinna ýmsu lögreglumanna, lögreglustjóraembætta, sýslumannsembætta sem hafa verið settar fram á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar. Grunnöryggisþáttum landsins er ekki fullnægt. Ég vil geta þess að ég er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefnd um uppbyggingu löggæslumála sem er núna í fyrsta sinn kölluð saman, sú nefnd á að koma saman á föstudag, þ.e. ef þingfundur stendur ekki enn þá yfir þá.

Ég sé hvergi í frumvarpinu neitt sem eyrnamerkt er uppbyggingu löggæslunnar, en þó samþykkti þingið í vor þingsályktunartillögu um að móta löggæsluáætlun. Hluti af því er m.a. að koma saman í þessari nefnd um uppbyggingu löggæslunnar og reyna að móta ákveðna framtíðarsýn. Það er hvergi gert ráð fyrir ákveðnu fjármagni til að byggja upp og styðja enn betur við lögregluembættin í landinu. Það er ekki gert ráð fyrir slíkri vinnu við uppbyggingu á þessu sviði inn á næsta ár og vil ég lýsa yfir mikilli vanþóknun vegna þess.

Við heyrum síðan af fundum um löggæslumál eins og þeim sem haldinn var í dag og fjallaði meðal annars um hugsanleg hryðjuverk hér á Íslandi. Okkar helstu sérfræðingar innan lögreglunnar hafa verið að funda með norskum kollegum sínum og menn hafa verið að draga fram að það séu meiri líkur en minni á að framið verði svona voðaverk af einhverju tagi hér á landi á næstu fimm til tíu árum eins og kom fram í máli Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra, á fundi hjá Varðbergi í dag. Það er gott að lögreglan er að leita samvinnu og upplýsinga og þekkingar annars staðar frá. Jón segir meðal annars í viðtali sem birtist á mbl.is, með leyfi forseta:

„Ekki nóg að marka stefnu. Jón sagði að stjórnvöld væru að vinna að margvíslegri stefnumörkun sem tengist öryggi þjóðarinnar.“ — Fínt. — „Það er einfaldlega þannig að þessar stefnur hafa lítið gildi ef þeim fylgir ekki fjármagn. Þá verður þeim ekki hrundið í framkvæmd.“

Og ég beini þessu til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar. Það væri ágætt að fá viðhorf hans af því að við fáum ekki fram viðhorf hæstv. innanríkisráðherra. Hvaða umræða hefur átt sér stað innan fjárlaganefndar um eflingu og uppbyggingu löggæsluembætta? En það er bara flautað hér og raulað, vonandi þá eitthvert íslenskt popplag. (Gripið fram í.)

Í viðtalinu segir einnig, með leyfi forseta:

„Jón bendir á að þegar stjórnvöld væru að meta áhættu af atburðum eins og eldgosum, hópslysum eða hryðjuverkum væru viðbrögðin alltaf þau sömu. Það þyrfti að grípa til mótvægisaðgerða. „Okkar niðurstaða eftir þessa yfirferð er að áhættustig vegna hættu af hryðjuverkum og öðrum stórkostlegum ofbeldisverkum sé óásættanleg. Áhættustigið er of hátt og það vantar mótvægisaðgerðir, sem í raun og veru verður að grípa til strax.““

Ætla menn ekki að taka mark á þessu? Ætla menn ekki í þessu tilviki sem öðrum að hlusta á löggæsluna? Það væri eftir öðru af hálfu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar eða hæstv. ríkisstjórnar að ætla ekki að hlusta á lögregluna í þessum efnum því að þess sér ekki stað að menn ætli sér virkilega að efla löggæsluna í landinu. Hér brosir þingmaðurinn og er örugglega vafalaust stoltur af verki sínu. Það er rétt að draga fram að eitt og annað í þessu fjárlagafrumvarpi er hægt að fella sig við. En við öðru fáum við ekki svör. Það væri ágætt að fá einhver svör, að minnsta kosti útskýringar á því af hverju ákveðnir þættir eru ekki í fjárlagafrumvarpinu eða útskýringu á því af hverju menn standa til að mynda ekki við það sem er sagt á bls. 193 í fjárlagafrumvarpinu, þar sem er farið yfir markmið í ríkisfjármálum, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið áætlunar í ríkisfjármálum er fyrst og fremst að stöðva þá skuldasöfnun sem leitt hefur af hallarekstri ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins og snúa þeirri þróun í viðunandi afgang á afkomunni til að gera kleift að grynnka á skuldastöðunni. Þar með verður hægt að draga úr óhóflegum vaxtakostnaði og þeim ruðningsáhrifum sem hann hefur óhjákvæmilega á framlög til helstu málaflokka ríkisstarfseminnar. Einungis þannig verður unnt að treysta aftur stoðir velferðarsamfélagsins til frambúðar og styrkja stöðu ríkissjóðs.“

Þess vegna spyr ég: Af hverju nota menn ekki það sem þeir fá af veiðigjöldunum? Af hverju nota menn ekki það sem þeir fá af sölu ríkisfyrirtækja einmitt í það sem hér stendur, að grynnka á skuldum ríkissjóðs til að styrkja stoðir velferðarsamfélagsins? Af hverju er ekki verið að greiða niður skuldir í stað þess að setja enn og aftur fjármagnið í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað ekki boðlegt, en eins og segir í kvæðinu: Ekkert svar, ekkert svar, ekkert svar.