141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef í nokkrum ræðum nefnt ákveðna einstaka þætti þessa fjárlagafrumvarps og breytingartillagna við það og einkum staldrað við þau mál sem tengjast þeim málefnasviðum sem ég hef helst sinnt í þinginu. Það er kannski líka rétt að ræða málið út frá breiðari forsendum og þar velti ég því fyrst og fremst fyrir mér að hvaða leyti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gefur fyrirheit um að hin nauðsynlega endurreisn geti átt sér stað í íslensku efnahagslífi, að atvinnulífið geti náð vopnum sínum, að fyrirtækin geti farið að skapa meiri verðmæti og þjóðarbúið geti aukið og bætt sinn hag. Hvernig kemur fjárlagafrumvarpið inn í það?

Jú, einhverjir mundu segja: Nú er loksins farið út í fjárfestingar. Nú er loksins farið út í ráðstafanir sem fela í sér að peningum er varið til verkefna sem skapa störf og skapa veltu í samfélaginu og þá einkum vísað til þeirra atriða sem eru hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Það eru ábyggilega einhverjir sem eru tilbúnir að koma hingað og segja: Nú er verið að setja peninga inn í framkvæmdir og fjárfestingar og það mun svo hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið. Látum það nú vera.

Ég hef í fyrri ræðum haft efasemdir um sum af þeim verkefnum sem hér eru færð undir hatt fjárfestingaráætlunarinnar. Ég efa ekki að sum þeirra eru til þess fallin að fjölga störfum á einhverjum sviðum, a.m.k. tímabundið. Það að fara út í að reisa byggingu eins og hús íslenskra fræða eða gestastofu í Vatnajökulsþjóðgarði eða eitthvað þess háttar skapar auðvitað ákveðna veltu, ákveðin störf á framkvæmdatímanum. Því neita ég ekki. Það getur ábyggilega eitthvað jákvætt falist í öllum þeim verkefnum sem tengd eru græna hagkerfinu, ég ætla alls ekki að útiloka það. Mér finnst reyndar mjög ómótað hvernig á að ráðstafa þeim peningum. Eins og ég sagði einhvern tímann fyrr í þessari umræðu þá finnst mér skýringartextinn í nefndaráliti meiri hlutans vera harla loðinn og fátt þar sem hönd á festir, hvað varðar þessi grænu verkefni og nýtingu þeirra fjármuna sem á að verja í þau.

Það er talað um að veita 500 millj. í stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs. Ég veit ekkert meira um þann sjóð. Ég veit ekkert hvernig þeim peningum verður ráðstafað. Ég veit ekki á hvaða lagagrundvelli á að byggja þann sjóð, ekkert hefur komið fram um það. Ég veit ekki hvernig forsætisráðuneytið ætlar að úthluta 280 millj. sem tengjast ýmsum verkefnum tengdum græna hagkerfinu. Ég las auðvitað, eins og aðrir hv. þingmenn, skýringartextann sem fylgir meirihlutaálitinu en ég fékk harla lítið út úr honum, ekkert sem hönd á festir. Þar var raðað saman fallegum orðum í svona 20 línur, en þar var ekkert sem hönd á festir, ekkert sem gaf mér til kynna hvernig þessum peningum yrði raunverulega varið. Sama má segja um fleiri verkefni. En ég útiloka ekki að a.m.k. hluti þeirra peninga sem verja á í fjárfestingaráætlunina á næsta ári geti með einhverjum hætti haft jákvæð áhrif í hagkerfinu, ég ætla ekki að útiloka það. En það er bara ein hlið á peningnum.

Hvaða áhrif hafa aðrar ráðstafanir sem tengjast þessu fjárlagafrumvarpi? Hvaða áhrif hefur t.d. það sem kallað er nýjar tekjur, sem á að ná í með skattbreytingum sem tengjast fjárlagafrumvarpinu? Er það ekki svo að þar á að sækja milljarða og aftur milljarða í viðbótarskatta, einkum frá atvinnulífinu? Getur verið að það sem er að gerast hér sé að verið sé að taka kannski 8, 9 eða 10 milljarða út úr rekstri arðbærra fyrirtækja í atvinnulífinu til að setja í óviss verkefni? Kannski ekkert öll galin, en alla vega verkefni sem óvíst er um í sumum tilvikum hver arðsemi er af. Svo á ekki að setja allt til baka í atvinnustarfsemi sem tekið er frá atvinnulífinu í nýjum sköttum. Ó, nei, kannski helminginn, kannski minna en það. Ef við tökum summuna af þessu reikningsdæmi — jafnvel þó öll verkefnin sem talin eru upp undir liðnum fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar á næsta ári væru fín og arðbær og til þess fallin að auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, sem þau eru ekki. Sum þeirra eru það augljóslega ekki en sum kunna að vera það. En jafnvel þó þau væru öll hin fínustu fjárfestingarverkefni þá er engu að síður um það að ræða, ef við lítum á þau sem framlag til atvinnulífsins, framlag til verðmætasköpunar í samfélaginu, þá er það helmingi lægri upphæð en er verið að taka út úr arðbærum rekstri í auknum sköttum. Það er umhugsunarefni. Þegar hin stórkostlega fjárfestingaráætlun kemur til sögunnar þá er hún gerð þannig að stjórnmálamennirnir, stjórnvöld taka segjum, bara til að rúnna hlutina af, 10 milljarða út úr atvinnulífinu, úr arðbærri starfsemi og setja svo 5 til baka í starfsemi sem stjórnmálamennirnir telja sjálfir að kunni að vera arðbær, geti hugsanlega verið það.

Ég veit ekki hvort áhrifin af þessum breytingum bæði á tekjuhlið og útgjaldahlið komi til með að vera jákvæð fyrir hagvöxt og verðmætasköpun í landinu. Ég leyfi mér reyndar að efast um það og þegar maður horfir á aðra þætti, hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa á einstakar greinar, þá er augljóst að þær hafa ekki jákvæð áhrif.

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um áhrifin á ferðaþjónustuna af þeim skattbreytingum sem þar eru í bígerð. Við horfum á áhrif breytinga á tryggingagjaldi. Það er reyndar jákvætt að þar er með annarri hendinni verið að skila til baka til atvinnulífsins hluta atvinnutryggingagjalds. Það er gert með vinstri hendinni en með hægri hendinni er megnið af því tekið aftur inn til ríkisins í formi hækkunar á almennu tryggingagjaldi. Ríkisstjórnin þykist vera að standa við fyrirheit gagnvart atvinnulífinu, bæði Samtökum atvinnurekenda og launafólki, með því að lækka atvinnutryggingagjaldið en þá fylgir óvart sá böggull skammrifi að verið er að ná aftur í megnið af þeirri upphæð sem við getum orðað sem svo að verið sé að skila til baka til atvinnulífsins. Það sem er afhent með annarri hendinni er tekið burt með hinni. Auðvitað er ekki um neinar raunverulegar efndir að ræða á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð kjarasamninga 2011. Það er eiginlega hlálegt að ríkisstjórnin skuli reyna að halda því fram að verið sé að standa við yfirlýsingar um það þegar vissulega er verið að lækka atvinnutryggingagjaldið en almenna tryggingagjaldið er hækkað á móti. Fyrirtækinu sem borgar gjaldið má í sjálfu sér standa á sama þegar það greiðir upphæðina hvort þetta heitir almennt tryggingagjald eða atvinnutryggingagjald. Mönnum má standa á sama um það. Þannig að þetta er bara sjónarspil.

Svo eru auðvitað fleiri gjöld í þessu. Við þekkjum umræðuna um fjársýsluskattinn og við eigum eftir að taka hana. Þar er um skattahækkun að ræða. Við þekkjum umræðu um framlengingu á ýmsum auðlinda- og umhverfisgjöldum, þar sem gefin höfðu verið fyrirheit um að gjöldin væru tímabundin en nú er verið að gera þau varanleg, og svo má lengi telja. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég lýk hér máli mínu en mun (Forseti hringir.) við tækifæri biðja um orðið aftur.