141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[06:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta fjárlagafrumvarp er svolítið sérkennilegt að því leytinu að þegar maður les það og reynir að átta sig á samhenginu þá er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gjörir. Þegar ég tala um hægri höndina og vinstri höndina þá er ég ekki með neinar pólitískar skírskotanir heldur eingöngu að segja að svo er að sjá sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar séu að vinna að ýmsum markmiðum með gagnstæðum hætti sem veldur því að ýmislegt sem boðað er í öðru orðinu er tekið til baka með gjörðum í framhaldinu.

Ég fór aðeins yfir það áðan hvernig hækkun á arðgreiðslum ríkisfyrirtækja hefur áhrif á stöðu ýmissa málaflokka. Ég tæpti á málum sem snúa að raforkufyrirtækjunum. Ég fór betur yfir það í fyrri ræðu um áhrifin á Íslandspóst, sem er auðvitað í mjög sérstakri stöðu eins og allir vita, og það er ástæða til þess að hafa fleiri orð um hvernig þessi mál virka saman. Annars vegar krafan um auknar arðgreiðslur frá orkufyrirtækjunum og hins vegar áhrifin á orkuverð til landsmanna.

Það sem liggur fyrir í þeim tillögum sem núna eru uppi á borðum frá meiri hluta fjárlaganefndar er að ætlunin er að þau tvö orkufyrirtæki sem einkanlega þjóna landsbyggðinni, Orkubú Vestfjarða og Rarik, eiga að greiða 370 millj. kr. í arðgreiðslur á næsta ári. Þetta er dálagleg upphæð og mun auðvitað hafa heilmikil áhrif á möguleika þessara fyrirtækja til að selja orku sína á viðunandi verði. Það er ljóst mál að þetta mun hafa verðlagsáhrif í för með sér.

Þetta er mjög sérkennilegt líka í ljósi þess að á sama tíma og meiri hluti fjárlaganefndar kynnir áform sín um að hækka arðgreiðslurnar og hafa þær 370 millj. á næsta ári þá er sýnd hér einhvers konar sýndarfjárveiting upp á 175 millj. kr. vegna aukinna niðurgreiðslna til að lækka húshitunarkostnað. Og hvaða áhrif skyldi þetta hafa? Er það ekki alveg viðblasandi? Það sem hæstv. ríkisstjórn, stjórnarliðar og meiri hluti fjárlaganefndar er í raun og veru að gera er að taka til baka tekjur frá orkufyrirtækjunum í formi arðgreiðslna upp á helmingi hærri upphæð en orkufyrirtækin fá til að ráðstafa til niðurgreiðslna til lækkunar á húshitunarkostnaði. Nettóáhrifin af þessu verða ekki lækkun á húshitunarkostnaði heldur hækkun á húshitunarkostnaði. Hvað er þá orðið um öll stóru orðin? Hvað er orðið um alla svardagana, allar yfirlýsingarnar, öll loforðin um að til standi að lækka húshitunarkostnað í landinu? Hv. stjórnarliðar hafa í öngum sínum í umræðunni fyrr í haust, m.a. þegar ég lagði fram frumvarp um að fara að tillögum stjórnskipaðrar nefndar um hvernig ætti að lækka húshitunarkostnaðinn á hinum köldu svæðum, komið upp og sagt: Þetta stendur allt til bóta. Okkar góða ríkisstjórn ætlar að leggja svolítið meiri pening í púkkið og lækka húshitunarkostnaðinn með því að auka niðurgreiðslurnar.

Jú, það er rétt. Þeir leggja fram tillögu um að auka niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar um 175 millj. kr. Ef við berum það svo saman við það sem gerst hefur á síðustu þremur árum í tíð þessarar ríkisstjórnar, þar sem þessar niðurgreiðslur hafa verið lækkaðar um 530 millj. kr. að raungildi, þá er verið að stíga skref til baka sem nemur 1/3 af því sem búið er að taka burt í niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. En til að þessi áhrif verði ekki að öllu leyti jákvæð fyrir þá sem búa við mikinn húshitunarkostnað þá er um leið ákveðið að hækka þannig arðgreiðslurnar frá þessum fyrirtækjum að þær nemi tvöfaldri þeirri upphæð sem hækkunin á niðurgreiðslunum nemur. Ríkisstjórnin er að afla sér tekna í ríkissjóð upp á 370 millj. kr. og deilir til baka 175 millj. kr. og talar um þetta eins og þetta sé gert af sérstakri gæsku gagnvart þeim heimilum sem búa við mestan húshitunarkostnað.

Ég ætla að taka lítið dæmi í þessu sambandi. Orkubú Vestfjarða þjónar fólki og fyrirtækjum á orkuveitusvæði Vestfjarða. Á Vestfjörðum búa um 7 þúsund manns og arðgreiðslurnar eru 60 millj. kr. Það svarar því að arðgreiðsla á hvern Vestfirðing sé upp á 8.627 kr. Ef við margföldum þetta og reiknum út miðað við fjögurra manna fjölskyldu þá erum við að tala um arðgreiðslur upp á um 35 þús. kr. á hverja fjölskyldu. Þetta svarar væntanlega til húshitunarkostnaðar fyrir einn og hálfan til tvo mánuði, sem í raun og veru er verið að leggja aukalega á í formi arðgreiðslukröfunnar á hendur Orkubúi Vestfjarða, sem lendir með beinum hætti á herðum fólksins sem býr á Vestfjörðum. Þetta eru kveðjurnar. Þetta eru hinar köldu kveðjur sem verið er að senda fólkinu þarna um að það þoli nú enn meiri hækkun á húshitunarkostnaðinum. Það sé ekki nóg að gert af hálfu ríkisstjórnarinnar sem búin er að lækka niðurgreiðslurnar. Hún er að setja sérstakan skatt á orkufyrirtækin sem hefur haft þau áhrif að taxtar orkufyrirtækjanna hafa hækkað sem hefur stuðlað að frekari verðhækkunum í landinu. Það hefur aftur á móti kallað fram hækkanir á töxtum fyrirtækjanna og ríkisstjórnin bætir síðan ofan í kaupið við þessum arðgreiðslum upp á 35 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu á Vestfjörðum um þessar mundir. Þetta er veruleikinn í þessu máli. Þess vegna skýtur það óneitanlega mjög skökku við að hæstv. ríkisstjórn, sem setti á laggirnar sérstaka stjórnskipaða nefnd til að leggja á ráðin um hvernig ætti að fara að því að lækka húshitunarkostnað, birtir í næsta fjárlagafrumvarpi á eftir áform um að auka arðgreiðslurnar, sem mun bitna bæði á fyrirtækjum og almenningi á þessum köldu svæðum í formi hærri taxta.

Það er athyglisvert hvernig þetta er útskýrt þegar við lesum skýringar við breytingartillöguna sem lýtur að hækkunum á niðurgreiðslum á húshitun upp á 175 millj. kr. Þar er vakin athygli á því að núna sé búið að leggja á sérstakan skatt af seldri raforku og heitu vatni. Fjárhæð skattsins af raforku er 12 aurar á hverja kílóvattstund af seldri raforku en 2% af smásöluverði af heitu vatni. Það er jafnframt upplýst í þessum skýringartexta að það sé áætlað að skatturinn gefi af sér 2 milljarða á næsta ári og fyrirhugað er að framlengja lögin, en þau falla að óbreyttu úr gildi í árslok 2012. Skattheimtan gefur 2 milljarða, þetta er nýr skattur. Af þessum 2 milljörðum á að ráðstafa 175 millj. kr. til hækkunar á niðurgreiðslum. Það vantar ekki fyrirheitin, en það er ætlunin að vísa þeim inn í framtíðina. Það eru framtíðarstjórnvöld sem eiga að takast á við vandann sem þessi hái húshitunarkostnaður er.

Í þessum skýringartexta segir að lagt sé til að tillögum starfshópsins verði hrundið í framkvæmd á næstu árum. Hér er verið að vísa til starfshóps sem ríkisstjórnin skipaði sem lagði það til að lækka húshitunarkostnaðinn á þessum köldu svæðum með því að greiða niður að fullu dreifingarkostnaðinn sem núna leggst með ofurþunga á þessi svæði, en það er hins vegar ekki ætlunin að efna þetta fyrr en einhvern tímann í blámóðu fjarskans í framtíðinni. Þetta skref upp á 175 millj. kr., sem var tekið tvöfalt til baka með hærri arðgreiðslum, stendur eftir en hins vegar er ætlunin að öðru leyti að efna loforðin einhvern tímann í framtíðinni. Þetta eru náttúrlega mjög lítilmótleg viðhorf sem þarna birtast en sýna hins vegar svart á hvítu hver hinn raunverulegi vilji og áhugi hæstv. ríkisstjórnar er. Ríkisstjórnin lagði fram í upphafi þings lista yfir 177 mál sem voru forgangsefni ríkisstjórnarinnar. Þar er hvergi neitt að finna varðandi húshitunarmálin. Með öðrum orðum, það rúmast (Forseti hringir.) ekki einu sinni inni á lista yfir 177 mikilvægustu mál ríkisstjórnarinnar að takast á (Forseti hringir.) við þessi vandamál. Þeim er vísað bara langt inn í framtíðina.