141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir hjúkrunarfræðinga.

[15:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil bera spurningu undir hæstv. velferðarráðherra í tilefni af því að 254 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum frá og með 1. mars nk. á Landspítalanum. Óánægja með launakjör á Landspítalanum hefur áður verið til umræðu á þessu þingi og kallað hefur verið eftir svörum frá ráðherranum og ríkisstjórninni um það með hvaða hætti ríkisstjórnin telji mögulegt að bregðast við, en fátt hefur orðið um svör. Málið hefur haldið áfram að versna og nú liggja fyrir uppsagnir 254 hjúkrunarfræðinga. Það er kannski afleiðing þess að engin skýr svör hafa komið og menn hafa dregið lappirnar.

Ég vil bera það undir hæstv. velferðarráðherra með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst bregðast við þeirri stöðu þar sem nú þegar hefur komið fram hjá forstjóra spítalans að gangi uppsagnirnar eftir miðað við 1. mars næstkomandi þurfi að eiga sér stað grundvallarbreyting á rekstrarfyrirkomulagi spítalans, þessarar mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsmanna. Það hlýtur að vera landsmönnum öllum áhyggjuefni, sjúklingunum og reyndar öllum starfsmönnum Landspítalans vegna þeirra ótrúlega víðtæku áhrifa sem uppsagnirnar munu hafa, gangi þær eftir 1. mars. Þess vegna er kominn tími til að hæstv. velferðarráðherra, sem fer fyrir þessum málaflokki og ber ábyrgð á heilbrigðismálunum, (Forseti hringir.) þó að hann fari ekki fyrir kjaramálum, geri grein fyrir því með hvaða hætti brugðist verður við þessari stöðu. Það er orðið afar brýnt.