141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir hjúkrunarfræðinga.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Enn koma engin skýr svör um hvað ríkisstjórnin hyggst gera. Varðandi launajafnréttið er það neisti sem ráðherrann kveikti sjálfur sem komið hefur þeirri umræðu af stað. Hann hefur reyndar dregið ákvörðun sína um hækkun launa forstjórans til baka.

Ég tel að í málinu kristallist ákveðinn vandi sem ríkisstjórnin getur ekki fundið lausn á. Hann er þessi: Ef við ætlum að mæta væntingum fólks til stuðnings frá velferðarkerfinu, ef við ætlum að mæta væntingum opinberra starfsmanna um betri kjör í framtíðinni er ekki hægt að fylgja þeirri efnahagsstefnu sem þessi ríkisstjórn fylgir. Það er ekki hægt að byggja eingöngu á því að hækka skatta og draga úr fjárfestingu og framförum í þessu landi. Það verður einfaldlega að fara að skipta um efnahagsstefnu í landinu til að við getum staðið undir væntingum opinberra starfsmanna um vonir um betri kjör í framtíðinni og væntingum allra þeirra sem treysta þurfa á velferðarnetið sem við höfum (Forseti hringir.) ofið í þessu landi inn í framtíðina. Við munum aldrei geta risið undir neinum væntingum meðan hagvöxturinn lætur á sér standa og við fáum enga nýjar fjárfestingar.