141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir hjúkrunarfræðinga.

[15:08]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þá hefur formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson talað. Það er ekkert hægt að gera nema bjóða opinberum starfsmönnum að hér verði efnahagsstefnu breytt til langs tíma. Ég hef ekki heyrt að það sé það sem kröfur hjúkrunarfræðinga snúast um.

Komið hefur skýrt fram þegar talað hefur verið um launajafnrétti að það hafi ekki verið rætt í samhengi við það sem hv. þingmaður nefndi heldur fyrst og fremst að gerðir hafi verið kjarasamningar, m.a. við lögregluþjóna og sjúkraflutningamenn þar sem vaktafyrirkomulag og annað er með öðrum hætti en á spítalanum. Meginágreiningurinn hjá hjúkrunarfræðingum er sem sagt líka sá að orðið hafa breytingar á vinnufyrirkomulagi og tekjumöguleikarnir hafa minnkað gríðarlega mikið. Allt það hlýtur að verða til skoðunar við lausnina.

Ætlast er til þess að ég sem velferðarráðherra tilkynni hvað dugi til. Það væri afar hrokafullt ef menn eru að fara í viðræður við fólk um það hvaða kröfur eru gerðar og hvaða væntingar eru. Það hefur komið fram að hluta til. (Forseti hringir.) Margt verður afar erfitt að koma til móts við, það segir sig bara sjálft, en ég hef ekki trú á því að þær lausnir dugi sem hér voru nefndar af hv. málshefjanda.