141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir í sjávarútvegi.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vissulega alvarleg staða, ég get tekið undir það, þegar 27 starfsmönnum er sagt upp í Þorlákshöfn og að sjálfsögðu er það ekki ásættanlegt. Nú hef ég ekki farið ofan í stöðu umrædds fyrirtækis en ég hygg að ýmsar fleiri skýringar geti verið til staðar en sú álagning sem felst í veiðileyfagjaldinu. Það er staðreynd að 80 milljarða framlegð er á árinu í sjávarútvegi. Eftir að veiðigjald hefur verið greitt, sem er kannski 13 milljarðar, erum við að tala um að 65–67 standi eftir. Maður hefði því haldið að töluvert væri eftir til skiptanna í sjávarútvegi þó að hann greiði sanngjarnan og eðlilegan hlut af nýtingu auðlindarinnar til samfélagsins. Ef á að fara að skoða þetta út frá einstaka fyrirtæki þá tel ég að líka þurfi að skoða stöðu þess.

Við vitum líka að í álagningu veiðigjalds hefur verið tekið tillit til skulda fyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og líka í gjaldtökunni. Ég tel því að þegar á allt er horft sé sú gjaldtaka sem ákveðin var á síðasta ári sanngjörn og eðlileg og ætti ekki að ríða útgerðinni að fullu svo að hún geti ekki staðið starfhæf eftir. Það hlýtur fleira að koma þarna til. Útgerðirnar voru jú margar hverjar skuldsettar áður en veiðileyfagjaldið kom á þannig að þarna getur margt fleira komið til en veiðileyfagjaldið.