141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir í sjávarútvegi.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefði líka verið gaman að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessu í heildina tekið. Hver er skoðun hv. þingmanns þegar horft er á veiðigjaldið og á framlegðina? Framlegðin er 80 milljarðar og 13 milljarðar af því eru greiddir til samfélagsins, hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? (Gripið fram í.) Margir sérfræðingar vöruðu við, segir hv. þingmaður. [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Margir sérfræðingar sem fjölluðu um þetta mál töldu líka að sú gjaldtaka sem var sett á í fyrra væri ekki óeðlileg. Það var líka farið í aðgerðir sem hlífðu þessum fyrirtækjum frekar við gjaldtökunni, minni útgerðarfyrirtækjum, meðal annars vegna mikilla skulda.

Ég get vissulega tekið undir það að erfiðleikar á erlendum mörkuðum gera þessum fyrirtækjum erfitt fyrir. En ég held að þessi gjaldtaka sé þolanleg í það heila tekið.