141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

áhrif hækkana í fjárlögum á skuldir heimilanna.

[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, bara ein gjaldahækkun, hækka lán heimilanna um 3 milljarða. Og ég spurði hæstv. forsætisráðherra: Hver er hækkunin í heild sinni? Hæstv. forsætisráðherra kallar þetta leiki.

Ég hef oft og tíðum gagnrýnt hæstv. forsætisráðherra en ég átti ekki von á því að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kæmi hingað og kallaði það leiki þegar menn væru að reyna að sjá hve skuldir heimilanna hækka mikið. Kannski er það svo að það sé ein manneskja á Íslandi sem er ekki meðvituð um þann vanda sem íslensk heimili eiga við. Það er þá hæstv. forsætisráðherra sem afhjúpaði sig hér og svaraði ekki spurningunni sem ég lagði fram. (Forseti hringir.) Ég vildi fá að vita hve lán heimilanna hækka mikið vegna gjaldahækkana ríkisstjórnarinnar. Ég bið hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að tala ekki um það alvarlega mál sem leiki.