141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef hér við 2. umr. fjárlaga til að gera veiðileyfagjaldið að umtalsefni, ekki síst í ljósi þeirrar ömurlegu fréttar frá Þorlákshöfn, sem var til umræðu á milli mín og hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma fyrr í dag, þess efnis að 27 manns hafi verið sagt upp í morgun í sjávarútvegsfyrirtækinu Auðbjörgu ehf. Þetta eru ömurlegar fréttir og skýringarnar eru nokkrar en þó helst auknar álögur og sú aðför stjórnvalda að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum.

Ástandið í sjávarútveginum er erfitt um þessar mundir. Ástand á mörkuðum er þungt, mikil birgðasöfnun og verð lágt vegna efnahagsástands á þeim mörkuðum sem við eigum mest í viðskiptum við, allt eru það áföll sem sjávarútvegurinn er vanur að takast á við. Útgerðarfyrirtækin vita að verð getur farið upp og niður, útgerðarfyrirtækin, og stjórnendur þeirra, vita að aflabrestur getur orðið. Þetta eru áföll sem menn búa sig undir og hagræða fyrir í rekstri.

Það er hins vegar afar erfitt fyrir stjórnendur þessara umræddu fyrirtækja að búa sig undir það ástand sem hefur varað á síðastliðnum árum. Það er því ekki skrýtið að mönnum ofbjóði. Veiðileyfagjaldið hefur hækkað á þessu ári úr rúmum 2 milljörðum upp í 12 milljarða í áætluðum tekjum fyrir ríkissjóð. Það er gríðarleg hækkun, 10 milljarða kr. hækkun á veiðileyfagjaldi sem átti að taka inn á þessu ári með auknum álögum á þessi fyrirtæki.

Í tilfelli þess fyrirtækis sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í dag þá fer veiðileyfagjaldið á það fyrirtæki, Auðbjörgu, úr um það bil 15 millj. kr. í 52 millj. kr. á ári. Það breytist sem sagt úr því að vera um það bil 1 millj. kr. á mánuði, sem fyrirtækið greiðir í veiðileyfagjald, í það að verða 1 milljón kr. á viku. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp. Fyrirtækið getur ekki fjárfest, fyrirtækið getur ekki borgað fólki laun eins og kom fram í fréttum í dag og það er ömurlegt. En þá sagði hæstv. forsætisráðherra: Þetta er sanngjörn og eðlileg gjaldtaka og skýringanna hlýtur að vera að leita annars staðar.

Ég fór yfir það. Það eru erfiðir tímar á mörkuðum, það eru erfiðir tímar í sjávarútvegi en það er tímabundið og því geta menn gert ráð fyrir í áætlunum sínum. Ef við værum að horfa upp á að verið væri að taka þetta fjármagn af þessum fyrirtækjum til að efla löggæslu, til að efla heilbrigðiskerfið, til að efla grunnþjónustuna í landinu þá væri það nú sök sér. En það er ekki þannig. Það er verið að taka veiðileyfagjaldið til að setja peninga í grænkun íslenskra fyrirtækja, hvað sem það nú er. Það er verið að taka peninga í græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Það er verið að taka peninga af þessum fyrirtækjum, leggja á þau auknar álögur sem sliga þau, í atvinnuleikhópa, útflutningssjóði og handverkssjóði. Allt rosalega fín mál. En ég get ekki séð réttlætið í því og ég get ekki séð að það sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið í heild að fyrirtæki í verðmætasköpun fari á hausinn, þráðbeint á hausinn, til að við getum verið með gæluverkefni eins og þau sem ég var að lýsa. Það er algjörlega fáránlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra sem telur enn þá að þetta sé sanngjörn og eðlileg gjaldtaka. Það ömurlegasta við þetta allt saman er að við þessu öllu var varað. Allir sérfræðingar, hagsmunaaðilar, umsagnaraðilar úr öllum greinum sjávarútvegsins vöruðu við þessu. Og það sem meira er: Þetta átti allt að gerast til að auka nýliðun og aðgengi að auðlindinni; fallegra, líf í höfnunum og allt þetta.

Þetta verður hins vegar til þess að samþjöppun verður í greininni. Litlu krúttlegu og meðalstóru fyrirtækjunum, fjölskyldufyrirtækjunum úti um allt land, mun blæða. Það eru þau sem veiðileyfagjaldið er farið að bíta á nú þegar. Við sjáum dæmin frá Siglufirði í síðasta mánuði, Ögurvík og nú síðast í dag frá Þorlákshöfn. Fyrirtæki sem hefur í yfir 30 ár verið í rekstri, alltaf á sömu kennitölunni, stöndugt fyrirtæki, burðarás í sínu byggðarlagi — og það að 27 manns sé sagt upp í Þorlákshöfn jafngildir því að 1.700 manns missi vinnuna í Reykjavík. Það held ég að hæstv. forsætisráðherra, þingmaður Reykvíkinga, mundi kvarta yfir því ef 1.700 manns misstu vinnuna á einum degi í sama fyrirtækinu í Reykjavík.

Ég hef rætt þetta áður við þessa umræðu en ég ætla að gera það aftur vegna þess að þetta er svo rangt, þetta er svo röng forgangsröðun og þetta eru svo röng skilaboð. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra: Hvaða skilaboð eru þetta til þessara 27 einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem búa nú við það að vera búin að missa vinnuna? Og það er ekkert í sjónmáli að fá aðra vinnu, ekki í Þorlákshöfn. Ég leyfi mér að fullyrða að fleiri fyrirtæki þar þurfa að horfa í hverja einustu krónu og hvern einasta starfsmann. Spurningin er: Hvort á að borga skattinn eða borga fólkinu laun? Menn losna ekki við skattinn, því miður, ekki fyrr en við losnum við þessa ríkisstjórn, sem ég vona að gerist sem allra fyrst. En þetta getur ekki gengið svona.

Ef þetta væri nú til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna — nei, þetta er í gæluverkefni. Og það sem meira er, það fólk sem stjórnar landinu hefur ekki einu sinni trú á eigin jólapökkum. Í öllum liðum er verið að henda út — og þetta eru engar smáupphæðir. Það er milljarður hér, 800 millj. kr. í byggingu húss íslenskra fræða, sem er frábær hugmynd, ég held meira að segja að hún hafi orðið til í tíð okkar sjálfstæðismanna og nota átti símapeningana í það. Nú eru þeir peningar bara ekki til lengur og þá held ég að við getum öll orðið sammála um það, eins miklir stuðningsmenn og við erum fyrir þessa framkvæmd, að leggja hana aðeins til hliðar og borga frekar lögreglumönnunum okkar. Að leggja hana aðeins til hliðar og byggja upp góða heilbrigðisþjónustu og tryggja að hún verði áfram á heimsmælikvarða.

Stærsta vandamálið í dag í íslensku samfélagi er það að ekki er leitast við að ná samstöðu um það sem máli skiptir. Ríkisstjórn Íslands er of upptekin við að vinna hugmyndafræðilega sigra, berja á íhaldinu og gegn öllu því sem við sjálfstæðismenn höfum komið til leiðar á undanförnum árum. Skiptir þá engu máli hvort það er gott eða slæmt og það er það sem er svo sorglegt. Þess vegna á þetta fjárlagafrumvarp ekkert annað skilið en falleinkunn.