141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:11]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga 2013. Mig langar í fyrsta lagi að koma inn á breytingartillögu sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd gerði við fjárlagafrumvarpið. Það er áhugavert í því samhengi, kemur inn á það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom inn á hér áðan, hún nefndi töluna 27, verið var að segja upp 27 einstaklingum í kjölfar aukinna álaga á sjávarútveginn. Það eru einmitt 27 einstaklingar sem fá 126% launahækkun um áramótin í boði ríkisstjórnarinnar, það eru alls 81 millj. kr., heiðurslistamannalaun sem skiptast á 27 einstaklinga sem munu nú fá greidd 2,9–3,6 millj. kr. í laun. Ég er viss um að það eru ansi margir sem væru til í að sjá þessari tillögu frestað. Þetta hefur verið bundið í lög en við sjálfstæðismenn viljum sjá þessari launahækkun frestað. Við teljum ekki tímabært að veita fé núna í þessa hækkun sem á að koma til framkvæmda við áramót. Og í rauninni ætti að fresta henni ótímabundið. Á meðan við höfum ekki tök á að rækja grunnþjónustu samfélagsins og þurfum að auka álögur og hækka skatta á sjávarútvegsfyrirtæki og einstaklinga þá getum við ekki leyft okkur að hækka laun heiðurslistamanna um 126% á milli ára, 81 millj. kr.

Þetta telur allt saman þegar saman kemur og sérstaklega á erfiðum tímum. Við vitum að íslenska ríkið eyðir síst minni hluta tekna sinna í menningu og listir en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Það er mín skoðun að við getum ekki leyft okkur þessa forgangsröðun á fjárlögum á meðan meginþorri fólks í landinu hefur mátt þola mikla kaupmáttarskerðingu vegna launalækkana, verðhækkana og skattahækkana.

Við blasir vandamál sem farið er að vinda mjög upp á sig á Landspítalanum þar sem hjúkrunarfræðingar hafa hver á eftir öðrum sagt starfi sínu lausu. Þeir treysta sér ekki til að vinna við þær aðstæður sem nú eru og þeir treysta ekki ríkisstjórninni til að klára að semja við þá. Samningar þeirra hafa nú verið lausir í eitt ár, að ég tel, þannig að þetta er algjörlega óviðunandi. En á meðan erum við hér á Alþingi að ræða launahækkun upp á 126% fyrir heiðurslistamenn. Ég vil ekki gera lítið úr starfi þeirra listamanna en þetta á engan rétt á sér þessum tímapunkti.

Í öðru lagi fannst mér áhugavert það sem ég heyrði að upplýst hefði verið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun og snertir fjárlagafrumvarpið. Það voru upplýsingar um að hækkun tóbaksskattanna ein og sér leiði til þess að lán heimilanna hækki alls um 3 milljarða kr. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun sú upphæð renna inn á lán heimilanna. Eru heimilin í stakk búin til að taka þær auknu byrðar á sig? Ég segi nei. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir að hér er einvörðungu verið að ræða um tóbaksgjaldið en ekki áhrif annarra skattbreytinga á neysluvísitöluna og þar með á lán heimilanna. Þetta er bara eitt af svo mörgu.

Fyrir liggur að bensíngjald verður hækkað, áfengisgjöld verða hækkuð, vörugjöld verða hækkuð svo að ekki sé minnst á sykurskattinn. Allt hefur það áhrif á vísitöluna og lánin hjá fjölskyldunum í landinu. Hæstv. forsætisráðherra var fyrr í dag spurður út í áhrif annarra hækkana á lán heimilanna. Fátt var um svör. Að mínu mati er það algjörlega ótækt að ekki hafi verið búið að reikna út þau áhrif sem koma fram hér í fjárlögum. Það er bara dæmi um léleg vinnubrögð sem þarf svo sannarlega að bæta úr hér. Menn verða að vanda sig við fjárlagagerðina og menn verða að gera sér grein fyrir áhrifum hækkana, breytinga í fjárlögum, á fjölskyldurnar og heimilin í landinu og á efnahaginn. Það verður að liggja fyrir.

Svo eru önnur jaðaráhrif ef svo má kalla sem koma með þessu frumvarpi sem mér finnst mjög mikilvægt að koma inn á. Það snertir kannski meira yngri kynslóðina en þá eldri, ég veit það ekki, alla vega virðist það snerta meira þá sem hafa minna á milli handanna.

Með leyfi hæstv. forseta, þá var fyrirsögn Fréttablaðsins nú í vikunni: „Bruggið hellist yfir landann.“

Ekki að ástæðulausu. Helmingur námsmanna á Íslandi verður meira var við heimabrugg og smygl nú en fyrir hrun. Hlutfallið hefur hækkað frá því í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var á vegum MMR fyrir Félag atvinnurekenda um miðjan nóvember. Samkvæmt könnuninni hefur 31% svarenda orðið vart við mikla eða nokkra aukningu á heimabruggi eða smygli á áfengi frá hruni. Hlutfallið var áður 22%. Tæp 48% svarenda á aldrinum 18–29 ára sögðust hafa orðið vör við mikla eða nokkra aukningu. Sjálf er ég nú örlítið eldri en 29, ég er 35 ára, en ég þekki dæmi þess að fólk er farið að sjá þetta mun frekar og menn eru að leita í þessa átt, þetta er að færast frá ríkinu. Ég las mér til um það að sala á sterku áfengi hefur dregist saman um 40% frá því 2008 og að mér skilst bara á þessu ári um 6%. Jú, það hefur dregið úr sölunni en þessar fréttir og þessi könnun sýnir okkur að það hefur ekki endilega dregið úr drykkjunni eða neyslunni eins og menn voru kannski að vonast til. Heldur hefur þetta færst út fyrir og á svarta markaðinn.

Þetta er skýr afleiðing af stefnu vinstri stjórnarinnar og þeirri stefnu hennar sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um hér. Framleiðslan og neyslan færist út fyrir markaðinn. Við vitum að þessi hækkun á áfengisgjöldunum fer beint inn í vísitöluna og hefur þau slæmu áhrif sem ég kom inn á hér áðan. Ég hef tekið dæmi til að sýna fram á hvernig þessar hækkanir, sem virðast ekki svo miklar, hafa bein áhrif á lánin. Ég tók dæmi hér áðan um tóbaksgjaldið, það færir lánin upp um 3 milljarða kr. Ég er með annað dæmi sem er mjög einfalt að skilja og það er afborgun af leiguhúsnæði sem var 160 þús. kr. árið 2010, vísitölutengt lán, en er nú 175 þús. kr. Leigjendurnir þurfa sem sagt að takast á við 15 þús. kr. hækkun í hverjum mánuði.

Við vitum að launaþróunin hefur ekki verið sú sama, launin hafa ekki verið að hækka eins hratt og vísitalan. Þannig að þetta er mjög miður og þetta er með þeim verri fréttum sem við getum fært fólki nú í desember. Það er mjög slæmt að vera að þyngja byrðarnar enn frekar. Maður finnur að fólk er að breytast, fólk er að verða aðeins bjartsýnna en þetta er ekki til að hjálpa upp á það. Því miður er ástæðuna fyrir því hvernig byrðarnar þyngjast á fjölskyldurnar í landinu að finna í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið taki breytingum í næstu umræðu. Nú líður að því að þessari umræðu ljúki og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að lækka þessar fyrirhuguðu álögur á fjölskyldurnar í landinu.