141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heildaráhrifin fyrir ríkissjóð eru, eins og kom fram í máli mínu, 600 milljónir í plús umfram verðlag. Það koma til lækkanir á móti, þannig að hugsanlega er hægt að reikna eina breytu upp í einhverja ákveðna stærð ef við tökum hana eina út úr frumvarpinu, en menn þurfa að horfa á frumvarpið í heild sinni og matið er þetta sem ég nefndi áðan. En það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að nefndin fari mjög vandlega yfir þennan þátt mála og ég geri fastlega ráð fyrir því að hún muni gera það. Þá þurfa menn að hafa allt undir, ekki bara eitt og eitt gjald.

Það hefur líka komið skýrt fram að hækkun t.d. á ferðaþjónustuna hefur ekki mikil áhrif til hækkunar á innlendu verðlagi út af vísitölu neysluverðs hér innan lands af því að það eru tekjur sem koma utan frá. Ef menn skoða þetta í þessu ljósi held ég (Forseti hringir.) að við ættum að vera ansi nærri lagi þeirri tölu sem ég kynnti hér áðan.