141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það er grundvallaratriði sem við þurfum að fá svar við hvaða áhrif þetta frumvarp hefur á lán heimilanna. Eins og fram hefur komið mun einungis breytingin á tóbakinu hækka lánastabba heimilanna um 3 milljarða. Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra gefi okkur skýr svör um heildaráhrifin á skuldastöðu heimilanna ef við samþykkjum þetta frumvarp óbreytt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í annað og það eru málefni ferðaþjónustunnar. Nú á að hækka virðisaukaskattinn úr 7% í 14% gagnvart þessari atvinnugrein. Við höfum heyrt af því að aðilar í ferðaþjónustu hafa horfið frá uppbyggingu á mörgum stöðum á landsbyggðinni og um landið allt vegna þessara breytinga. Hefur fjármálaráðuneytið gert sér í hugarlund af hversu miklum tekjum ríkissjóður og samfélagið er að verða? Því menn eru hættir við uppbyggingu á mörgum stöðum.