141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna. Ég ætla ekki að ræða um tvöfalda árás á ferðaþjónustuna, ég geri það í ræðu hér á eftir. Ég ætla heldur ekki að ræða að það er mótsögn í því að auka skattheimtuna með auknu aðhaldi þegar verið er að flækja kerfið eins og hér er gert, sem gefur möguleika til skattsvika.

Ég ætla að ræða um krónutölugjöldin. Það stendur um 33. gr. að í ákvæðinu sé lögð til hækkun um 4,6% í takt við verðlagsforsendur. Það er bara ekki rétt. Þegar maður reiknar þetta í gegn fær maður aðrar tölur. Ég held að nefndin þurfi að fara sérstaklega í gegnum þetta.

Það sem ég vildi sérstaklega nefna, af því að tími minn er að verða búinn, eru sóknargjöldin. Þau ættu að hækka í 733 kr. á mánuði samkvæmt þessum sömu verðlagsforsendum en hækka ekki nema í 728 kr. (Forseti hringir.) Er þetta gert meðvitað?