141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skattstefna ríkisstjórnarinnar birtist í þessum bandormi. Það er tekið með annarri og gefið með hinni og ég verð að segja að það er ekki stefna sem mér hugnast.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurninga. Ég gagnrýni mjög skattahækkun á gistingu og ferðaþjónustu og ég gagnrýni mjög afnám afsláttar á vörugjöldum bílaleigubíla, ég gagnrýni aðferðafræðina, skort á samráði og allt það sem við þekkjum.

Í fyrsta lagi, hvað kostar kerfisbreytingin úr 7% í 14%, þ.e. aukaþrepið? Í öðru lagi, hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra haldið því fram að bætt skattskil sem eiga að skila 600 milljónum, sem er einhver lofttala, náist fram í ferðaþjónustu þegar á sama tíma er verið að auka flækjustigið? Og í þriðja lagi, hefur hæstv. fjármálaráðherra engar áhyggjur af því að samspilið milli verri rekstrarskilyrða (Forseti hringir.) bílaleiga og lítilla gistihúsa (Forseti hringir.) úti á landi sem treysta á ferðafólkið í bílaleigubílunum (Forseti hringir.) valdi því að rekstrargrundvöllur þeirra (Forseti hringir.) verði ótryggur?

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk.)