141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ferðaþjónustan var í 14%, en það var vegna þess að það var þá lægra þrepið. Ég er ekki að spyrja um kostnaðinn við prósentutöluna heldur kostnaðinn við að hafa þrjú þrep í stað tveggja. Það er kostnaðurinn sem ég er að spyrja um, óháð prósentunni.

Ég verð að ítreka spurningu mína um áhyggjur hæstv. fjármálaráðherra. Ég veit að hún sem fyrrverandi hæstv. ferðamálaráðherra er mikill áhugamanneskja um að ferðaþjónustan dafni vel. Við vitum að skattahækkanir sem þessar hafa verið harðlega gagnrýndar vegna þess að þær breyta hegðun fólks. Við erum ekki í samkeppni um ferðamanninn á milli Suðurkjördæmis og Norðausturkjördæmis. Við erum í samkeppni um ferðamanninn á milli landa. Ferðamaðurinn fer ef það er óhagstætt að leigja bílaleigubíl hérna og kaupa gistingu. Hann fer bara eitthvert annað þar sem það er ódýrara. Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur (Forseti hringir.) af þessu samspili?