141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef það, þess vegna er farin þessi mildari leið. Gistingin fer í 14% og við göngum einungis hálfa leið hvað varðar afnám afsláttar til bílaleiga. Það er ástæðan. Það er af því að við vitum að við þurfum að gæta að samkeppnisskilyrðum ferðaþjónustunnar á Íslandi. Þess vegna er þetta gert.

Ég heyrði þegar hv. þingmaður hélt ræðu í liðinni viku í tengslum við fjárlögin þar sem hún talaði um í allt öðru máli að breytingar á vörugjöldum, svokallaður sykurskattur, hefðu engin áhrif á fólk. Mér finnst að menn séu kannski komnir í smáþversögn við sjálfa sig þar, þ.e. ef þessir skattar munu hafa áhrif á hegðun ferðamannsins en sykurskattur muni hins vegar ekki hafa áhrif á (Gripið fram í.) kauphegðun fólks.

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður berum báðar hag ferðaþjónustunnar fyrir brjósti og það er þess vegna sem farin er sú milda leið sem kynnt er (Forseti hringir.) í frumvarpinu.