141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt mál og ég hef bara 15 mínútur til að fara yfir það. Ég mun ekki komast yfir alla þætti málsins heldur ætla ég að taka út nokkra og ræða um þá.

Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg svör. Það var annað en svörin frá hæstv. forsætisráðherra í dag við sömu spurningu sem sneri að áhrifum þessa á skuldir heimilanna. Það er einhver misskilningur í gangi, einhver misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég sé að minnsta kosti ekki neitt í þessu frumvarpi sem lækkar vísitöluna. Það er hins vegar margt sem hækkar vísitöluna. Við erum með 3 milljarða út af tóbaksgjaldinu. Ég lét nú doktor í hagfræði, sem er ekki langt frá, slá á það hvaða áhrif virðisaukaskatturinn hefði. Hann taldi það vera, svona lauslega og án ábyrgðar, 2,6 milljarða hækkun ofan á þessa 3 milljarða. Þá eigum við eftir áfengisgjaldið, eldsneytisskattana og ýmislegt annað.

Þær skattalækkanir sem eru í frumvarpinu eins og lækkun atvinnutryggingagjalds og afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila koma ekki inn í vísitöluna. Hér eru því fyrst og fremst hlutir sem munu hækka vísitöluna og það mun koma beint niður á heimilunum í landinu.

Ég vil trúa því, og heyri það á hæstv. fjármálaráðherra, að það sé í alvöru vilji til að fara vel yfir þessi mál. Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái nákvæmar upplýsingar um hvaða áhrif þessar hækkanir hafa á heimili og fyrirtæki í landinu, og þá á ég ekki aðeins við aukin útgjöld heldur líka hækkun lána. Þetta er auðvitað stórmál og ég þarf ekki að fara yfir það, við þekkjum þetta. Ekki hefur náðst sá árangur sem menn væntu varðandi skuldavanda heimilanna og við getum ekki farið fram með þetta frumvarp án þess að skoða vandlega hvaða áhrif það mun hafa á verðtryggðu lánin, sem er stærsti einstaki vandinn í skuldamálum heimilanna.

Förum aðeins yfir sérstöku tekjuöflunaraðgerðirnar. Hér skiptust hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og hæstv. ráðherra á skoðunum um hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að hækkunin hefði ekki neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.

Virðulegi forseti. Það hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum hvaða áhrif þessi hækkun hefur á ferðaþjónustuna, hún hefur nú þegar haft mjög neikvæð áhrif. Við fengum upplýsingar um það bara í dag í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að það eru 15% færri bókanir hjá Icelandair-hótelunum í dag en á sama tíma í fyrra. Menn misstu af þúsund manna ráðstefnu sem þeir voru að keppa um, sem átti að vera hér á Íslandi, til Dubai. Menn misstu stóra ráðstefnu sem átti að vera í Hörpu til Barcelona. Á sama fund — þetta er bara á fundinum í dag — kom hóteleigandi sem sagði að sá aðili sem pantar mest hjá honum frá Bandaríkjunum var að taka hótelin út hjá sér. Þegar hann fékk ekki svör við því hvert virðisaukaskattsstigið yrði sagði hann: Þá get ég ekki haft þig inni. Staðan hjá þessum ferðaþjónustuaðila sem fékk flestar pantanirnar frá Bandaríkjunum fer úr því sem hún var, sem ég spurði nú ekki um hver var, í ekki neitt. Þessi hækkun hefur þegar valdið skaða.

Hætt hefur verið við eða að minnsta kosti er búið að fresta stækkun á Hótel Hamri á þeim fallega stað, Borgarfirði, og Hótel Varmahlíð. Þetta eru bara upplýsingar sem við fengum í dag frá aðilum sem settust niður með okkur í nefndinni. Þetta er ekki nákvæm úttekt en dæmi um neikvæð áhrif sem þegar eru orðin vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Sumt af þessu er óafturkræft.

Við þurfum fjárfestingu inn í landið og við þurfum atvinnu. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að sjá hvernig fólk hefur bjargað sér í ferðaþjónustunni vegna þess að hér hefur ferðamönnum fjölgað. Við eigum ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut. Nú sjáum við fram á að það verði að minnsta kosti fjögur virðisaukaskattsstig í ferðaþjónustunni. Það sjá allir að það verður mikill kostnaður um utanumhald og eigum við að segja miklir möguleikar á skattahliðrun? Það er til dæmis annar virðisaukaskattur á gistingu en morgunverði. Hver segir hvert hlutfallið eigi að vera í morgunverði og gistingu? Hvað þýðir það? Það þýðir að ekki er sjálfgefið að þessar tölur hér á blaði um tekjur standist.

Á þetta hefur verið bent og við höfum dæmi sem sýna að þegar menn hlusta ekki á svona varnaðarorð lenda þeir í einhverju rugli. Gistináttaskatturinn sem þessi ríkisstjórn setti á er gott dæmi. Hann skilar 125 milljónum. Hann var settur á með ærnum tilkostnaði, en menn fullyrða í greininni að þeir borgi sem vilji borga. Hann sé svona valkvæður. Þetta er að verða eins og grískt ástand. Við gerum vont ástand verra með þessari breytingu.

Virðulegi forseti. Hér er gert ráð fyrir að hækka almenna tryggingagjaldið. Bæði ASÍ og SA hafa farið yfir það á fundi nefndarinnar að það gangi þvert á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var forsenda kjarasamninga. Það á líka að hækka tóbaksgjaldið. Fáir hafa samúð með þessu blessaða tóbaki nema þeir sem nota það, sem eru sem betur fer ekkert rosalega margir og verða vonandi færri. Það gjald kemur hins vegar beint við lán hjá öllum landsmönnum, burt séð frá því hvort þeir nota tóbak eða ekki. 3 milljarðar, hvorki meira né minna.

Hækka á fjársýsluskatt úr 5,45% í 6,75% og fjársýsluskatturinn leggst meðal annars á laun bankastarfsmanna, og svo menn séu alveg meðvitaðir um það mun það fyrst og fremst koma niður á litlum fjármálafyrirtækjum og kvennastörfum hjá stóru bönkunum. Þetta mun ýta undir lokanir á litlum útibúum, sérstaklega á landsbyggðinni og mun einkum koma niður á kvennastörfum, svo ég ítreki það.

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að það hefur verið gríðarleg aukning og samþjöppun á fjármálamarkaði á síðustu árum. Það hefur lítil umræða verið um það. Samþjöppunin var nokkur fyrir hrun en hún er komin langt yfir öll hættustig núna. Litlu aðilunum sem eru að reyna að fóta sig á markaðnum verður gert erfiðara fyrir með þessari hækkun og þetta mun líka ýta undir verktöku.

Síðan vil ég nefna hækkuð vörugjöld, þ.e. sykurskattinn. Þá er verið að flækja það stig enn frekar, fyrir utan að sú hækkun kemur náttúrlega beint niður á útgjöldum heimilanna. Kostnaðurinn verður óhemjumikill, einskiptiskostnaðurinn hleypur á milljónum, er 10 milljónir, og ef ég man rétt er rekstrarkostnaðurinn bara við að halda þessu úti 25 milljónir, ef marka má frumvarpið.

Vinir okkar Danir hafa dregið í land með slíkan sykurskatt vegna þess að þeim hefur ekki fundist hann skila sér út af umsýslunni í kringum þetta. Nóg eru nú opinber umsvif þótt menn fari ekki í þetta endalausa flækjustig. Skatturinn hækkar tekjurnar um 800 milljónir, en það er óvíst hvaða áhrif þetta hefur á lánin. Hann mun að minnsta kosti hækka lánin, hvort sem fólk borðar sykur eða ekki.

Svo er það hækkunin á bílaleigur. Minni umræða hefur verið um hana en hækkunina á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Menn hafa þó af þessu miklar áhyggjur og Bílgreinasambandið telur að þetta muni minnka innkaup hjá bílaleigum um allt að 50%. Þau innkaup hafa nú haldið bílaumboðunum uppi á undanförnum árum. Kannski er markmiðið með frumvarpinu, virðulegur forseti, að koma í veg fyrir innflutning á bílum, en þá eiga menn bara að segja það. Við eigum ekki að skerða samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar við útlönd. Við erum nefnilega í samkeppni við útlönd og það er ekkert sjálfgefið að fólk komi hingað bara af því að okkur finnst að það eigi að gera það.

Lögð er til áframhaldandi útgreiðsla á séreignarsparnaði og það hefur auðvitað sína kosti, virðulegi forseti, en hún hefur ekki reynst lækka skuldir heimilanna. Ég tel að ef við förum þessa leið eigum við að nýta hana til að lækka skuldir heimilanna. Þetta hefur ýtt undir falska einkaneyslu og ekki verið bót til lengri tíma.

Síðan eru hér áform um bætt skattskil. Við höfum séð það áður en við skulum vona að það gangi eftir. Ferðaþjónustan hefur bent á að það verði að taka meira á skattskilum í þeirri grein og hefur fært málefnaleg rök fyrir því og bent á dæmi. Maður mundi ætla að við ættum kannski að leggja áherslu á það, í stað þess að taka þá sem standa í skilum, greiða skatta, og skattleggja þá eins og hér er ráðgert. Það er orðið svolítið leiðigjarnt að alltaf sé verið að refsa þeim sem eru heiðarlegir og sýna ráðdeild og sparsemi, en aðrir sleppa.

Hér er kafli um breytingar á núverandi skattheimtu og útgjaldaráðstafanir. Fyrst og fremst er hér verið að svíkja skriflegt samkomulag sem gert var haustið 2009. Það gekk út á að álfyrirtækin greiddu tekjuskatt fyrir fram sem nam um 3,6 milljörðum, að ég held, á árunum 2010–2012. Síðan var settur á tímabundinn orkuskattur sem veltir milljörðum, ég hef heimildir fyrir því að það séu 5,9 milljarðar en ég vil samt ekki fullyrða það af því að ég hef ekki nógu góðar upplýsingar. Hvað sem því líður er hér um að ræða milljarða. Málið er mjög einfalt, það er verið að svíkja það skriflega samkomulag sem gert var.

Við segjumst vilja fá erlenda fjárfestingu í landið en með þessu erum við að segja við erlenda fjárfesta: Það er ekki hægt að treysta íslenskum stjórnvöldum. Það er ekki einu sinni hægt að treysta skriflegu samkomulagi. Það er mesti kostnaðurinn við þetta, það er það dýrasta í þessu.

Þessir aðilar hafa sagt: Við skulum að minnsta kosti gera nýtt samkomulag. Allt í lagi, það á að svíkja þetta að öllu leyti eða að stærstum hluta, gerum að minnsta kosti skriflegt samkomulag þannig að þetta líti aðeins betur út. Það er óskiljanlegt af hverju hæstv. ríkisstjórn hefur ekki að minnsta kosti sest niður með þessum aðilum til að reyna að finna flöt á málinu. Við erum allt í einu, eftir að hæstv. ríkisstjórn tók við, komin á þann stað að hér er pólitískur óstöðugleiki. Það er eitthvað sem við þekkjum bara í þeim löndum sem við viljum alls ekki bera okkur saman við. Það var ekki vandamál hér áður, þó að ýmislegt hefði betur mátt fara.

Lögð er til verðhækkun á krónutölusköttum og öðru slíku. Það er vörugjald á bensín, hækkun áfengisgjalds, útvarpsgjalds, gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Við vitum að minnsta kosti að eldsneytisskattarnir og hækkun áfengisgjalds og útvarpsgjalds mun koma beint inn í vísitöluna og hafa þar með áhrif á lánin.

En það er annað, virðulegi forseti, sala á sterkum drykkjum hefur minnkað um 40% frá árinu 2008. Fljótt á litið mundi maður fagna því, er það ekki ánægjulegt, virðulegi forseti, er ekki gott að fólk sé hætt að drekka sterka drykki? Ég held að við gleðjumst yfir því, en vondu fréttirnar eru þær að allar skoðanakannanir sýna að fólk hefur orðið miklu meira vart við brugg og smygl. Það eru vondu fréttirnar. Það þýðir að fullt af fólki er í hættu því að bruggið er nú ekki öruggt og í ofanálag fáum við engar tekjur af því. Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að ef einhver kaupir sér smygl eða brugg er almenna reglan sú að menn hlaupa ekki til og borga virðisaukaskatt af því. Ég held að það sé algjörlega almenn regla. Ég hef aldrei heyrt um nokkurn sem hefur keypt brugg og smygl og farið til skattsins og gert upp virðisaukaskattinn. (Gripið fram í.) Hvað þá áfengisgjaldið, virðulegi forseti.

Virðulegi forseti. Þó svo að eitthvað líti ágætlega út í excel, menn hækki skatta um einhver prósent og telji að það skili sér í peningum í ríkissjóð, er það ekki sjálfgefið, því miður. Það er augljóst að mikil vinna er fram undan. Þetta frumvarp kemur mjög seint fram og við höfum afskaplega skamman tíma. Það segir okkur að hæstv. ríkisstjórn hefur mistekist í mjög mörgu og flestu sem hún lofaði og lagði upp með og sérstaklega hvað snertir vönduð vinnubrögð. Það er verkefni hv. nefndar að fara sérstaklega yfir þetta mál og ég lít til þess og treysti á að (Forseti hringir.) við eigum bandamann í hæstv. ráðherra í að skoða sérstaklega áhrifin á lánin (Forseti hringir.) til heimilanna.