141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég les kostnaðarmat ráðuneytisins og hvað menn áætla að þessar breytingar muni kosta, þ.e. sérstaklega aukin skattheimta á ferðaþjónustuna í landinu, velti ég fyrir mér hvað það muni skila miklum tekjum. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að við þyrftum að líta á ýmislegt? Hvað gerist ef við gerum ekki neitt, þ.e. ef við hækkum ekki álögur á þessa atvinnugrein? Hv. þingmaður nefnir hér að við erum búin að missa fjöldann allan af ráðstefnum nú þegar og að menn hafa hætt við atvinnuuppbyggingu í Skagafirði og Borgarfirði.

Þegar menn leggja fram svona frumvarp finnst mér vanta að menn áætli tap í umsvifum vegna þeirra breytinga sem við ræðum hér. Ég hef þá trú að sá óstöðugleiki sem ríkisstjórnin hefur núna skapað í kringum þá grundvallaratvinnugrein sem ferðaþjónustan er hafi nú þegar valdið miklum skaða sem veldur því að ríki, sveitarfélög og ekki síst atvinnugreinin og það fólk sem vinnur í henni hafi orðið af heilmiklum tekjum þó að ekki sé búið að leiða þetta í lög.

Önnur spurning mín til hv. þingmanns lýtur að breytingu á skattkerfinu. Nú á að flækja skattkerfið enn frekar með því að bæta við 14% virðisaukaskattsþrepi þannig að í raun eru þá fjögur þrep í gangi. Hefur það komið fram í umræðum innan nefndarinnar hvað þetta aukna flækjustig kostar í því að breyta bókhaldskerfum, í hættu á skattundanskotum vegna þess að með fleiri skattþrepum aukast möguleikar þeirra sem vilja skjóta tekjum sínum undan háum sköttum? Hefur þetta eitthvað verið rætt í nefndinni?