141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í umræðunni er látið að því liggja að þær skattahækkanir sem dunið hafa yfir íslenskt samfélag á síðustu árum og sá efnahagslegi óstöðugleiki sem hér hefur verið sé núverandi ríkisstjórn að kenna, en það er auðvitað eins og alþjóð veit fjarri öllum sanni. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur þvert á móti tekist á við þann óstöðugleika sem við blasti í kjölfar efnahagshrunsins og unnið úr honum með meiri og betri árangri en björtustu vonir stóðu til og hefur náð gríðarlegum árangri í ríkisfjármálum — og auðvitað ekki síst með því að hafa tekið og þurft að taka óvinsælar og erfiðar ákvarðanir sem enginn stjórnmálamaður vill taka um að hækka skatta gríðarlega mikið á tiltölulega stuttum tíma. Hins vegar hefur tekist að ljúka að meira eða minna leyti þeim leiðangri á tekjuöflunarhliðinni þannig að tekjuhlið ríkissjóðs stendur núna tiltölulega sterk eftir, þrátt fyrir allar þær gríðarlegu hrakspár sem voru uppi hafðar í þessum sal oft og einatt í upphafi kjörtímabilsins og framan af því hvernig skattbreytingarnar mundu grafa undan skattstofninum og mylja allar tekjur undan ríkinu. Það hefur sem betur fer ekki gengið eftir. En með því að dreifa álögum víða um samfélagið og sérstaklega að leggja á auðlindatengdar greinar og efnafólk, eignafólk í samfélaginu og hátekjufólk hefur tekist að gera þetta þannig að skaplegt verður að teljast miðað við umfang þeirra gríðarlegu ráðstafana sem þurfti að ráðast í.

Ég hef sem formaður efnahags- og skattanefndar fyrst og nú sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, og í samstarfi við þrjá fjármálaráðherra, fengið að vinna þessum málum framgang í þinginu og má með sanni segja að oft hefur verið allt of skammur tími til að vinna úr málum. Því skeiði er nú sem betur fer lokið. Við höfum sett í þingskapalögin að þessi frumvörp, tekjuöflunarfrumvörpin, þurfi að koma fram með fjárlagafrumvarpinu í september. Á yfirstandandi ári hefðu þau því ekki komið fram núna, fyrir örskömmu síðan, nánast í lok haustþingsins heldur hefðu þau komið fram 11. september með fjárlögunum. Ég tel að það sé mikil framför og mikilvæg af því að menn eiga, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, að vinna skattkerfisbreytingar helst langt fram í tímann og skipuleggja þær vel og gefa mönnum færi á að laga sig að þeim þó að ekki hafi verið aðstaða til þess í því neyðarástandi sem var í ríkisfjármálunum í upphafi þessa kjörtímabils og lengi fram eftir því.

Í því ástandi held ég að óhætt sé að segja að formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem hér stendur hafi séð þá marga býsna ljóta og langa, bandormana í þinginu, en það eru þessi frumvörp kölluð, ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í þeim felast margvíslegar stórar ákvarðanir um tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs sem snerta mörg lög og fjölmargar lagagreinar og eru þess vegna býsna miklir langhundar og kallaðir bandormar. En ég verð að segja að þetta er nú einhver sætasti bandormur sem ég hef séð, hæstv. fjármálaráðherra, því að hér er í raun og veru ekki verið að taka inn tekjur í ríkissjóð svo að neinu nemi. Það eru aðeins nokkur hundruð milljónir sem umfram verðlagsbreytingarnar eru að skila sér í ríkissjóð, en hér er í rauninni verið að róa á bæði borð. Verið er að auka í barnabætur, verið er að auka framlög til vaxtabóta, það er verið að auka skattalegar ívilnanir til þess að hvetja til aukinnar atvinnu, meðal annars með því að gera sérstakar ráðstafanir með starfsmenn á vegum íslenskra fyrirtækja erlendis, með því að leggja af ákveðna skatta sem hafa verið atvinnulífinu sérstakur þyrnir í augum og síðan með því að framlengja mjög mikilvægar ívilnanir eins og Allir vinna sem er endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað og margir hafa nýtt sér og hefur skapað störf sem sannarlega hefur verið þörf á að skapa fyrir iðnaðarmenn eftir að íslenski byggingariðnaðurinn fraus meira og minna við hrunið.

Einnig ákvæði sem varða stimpilgjöld og ýmsir aðrir þættir sem jákvæðir mega teljast meðan aftur á tekjuhliðinni eru tiltölulega hefðbundnar gjaldahækkanir sem lúta að verðlagsuppfærslum á ýmsum gjöldum, bensíni, brennivíni og ýmsu slíku sem menn munu eflaust fara hér mikinn yfir í þingsalnum og ræðustólnum hversu miklar og skelfilegar séu. En staðreyndin er sú að þeir flokkar sem eru við stjórnvölinn á hverjum tíma láta þau gjöld almennt fylgja verðlagi, þó að þeir kunni að hafa nokkuð hátt um það á þeim tímabilum þegar þeir eru í stjórnarandstöðu að slíkt skuli vera gert. En allir menn vita það náttúrlega að ríkissjóður verður auðvitað að verja sinn hlut í þeim veltusköttum sem þarna eru.

Hitt er svo alveg rétt að sérstaklega á einu sviði eru skattkerfisbreytingar sem eru nokkuð íþyngjandi fyrir eina atvinnugrein, ferðaþjónustuna, þ.e. þær ákvarðanir sem blasa við um virðisaukaskatt á gistingu og síðan á skattumhverfi fyrir bílaleigur. Ég held að allir séu einhuga um það í þinginu að þær breytingar sem núverandi hæstv. fjármálaráðherra hefur gert í því efni með því að lækka fyrirhugaða virðisaukaskattshækkun á gistinguna séu sannarlega mjög til bóta og til þess fallnar að gera breytingarnar allar miklu skaplegri. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt þegar við ræðum það að virðisaukaskattur á gistingu fari úr 7% í 14% að hafa það í huga að það er sá virðisaukaskattur sem var verið að greiða í þeirri atvinnugrein fyrir örfáum árum. Lækkunin niður í 7% varð bara rétt fyrir hrun, í allra mestu bólunni þegar við í Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum héldum í barnaskap okkar að ríkissjóður væri svo vel efnum búinn að hann hefði efni á því að lækka sérstaklega neðra þrepið í virðisaukaskattinum niður í 7%. Ég held að fyrir því megi færa nokkuð sterk rök að það hafi verið algerlega röng ákvörðun og það sé býsna augljóst að ríkissjóður verði ekki til langframa rekinn með svo lágu virðisaukaskattsþrepi sem 7% eru. Þó að ferðaþjónustan færist aftur í að greiða sama virðisaukaskatt og hún gerði skömmu fyrir hrun og í mörg, mörg ár þar á undan þegar hún var engu að síður að vaxa og eflast eins og hún hefur verið að gera hin síðustu ár, hún mun halda áfram að gera það þrátt fyrir þessar breytingar trúi ég.

Um það að draga úr afslætti á vörugjöldum til bílaleigna vil ég segja að það er auðvitað eitthvað sem þær finna fyrir og lagðar hafa verið fram tillögur um með hvaða hætti megi afla svipaðra tekna fyrir ríkissjóð með öðrum aðferðum. Ég held að það sé út af fyrir sig eitthvað sem sé eðlilegt að ráðuneytið skoði áfram og rætt sé í nefndinni af því að það hlýtur að vera meginmarkmiðið að ná inn þeim tekjum sem ríkissjóður þarf á að halda með þeim aðferðum sem að bestu manna yfirsýn eru til þess best fallnar að ná þeim markmiðum. Ég hef fylgst með viðleitni núverandi hæstv. fjármálaráðherra til að hafa samráð um þær breytingar sem í raun og veru var búið að boða þegar ráðherrann tók við embætti og vinna að því að gera breytingar á þeim tillögum á grundvelli þess samráðs og til að koma til móts við sjónarmið. Ég geri ráð fyrir að sú viðleitni verði áfram uppi við frekari vinnslu málsins í þinginu í góðu samstarfi þingsins og ráðherrans.

Málið gengur nú til efnahags- og viðskiptanefndar sem hóf umfjöllun um málið með góðfúslegu leyfi stjórnarandstöðunnar í morgun. Eins og menn heyra veldur það því að stjórnarandstaðan mætir þeim mun betur nestuð í umræðuna, hún hefur fengið upplýsingar frá ýmsum hagsmunaaðilum á nefndarfundi áður en umræðan hófst. Ég treysti því að þar muni fara fram góð og gagnleg umræða um málið og þessar breytingar skoðaðar og kallað eftir þeim upplýsingum sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa kallað eftir, ekki síst eftir sundurliðun á áhrifum einstakra liða í bandorminum á skuldir heimilanna, á vísitöluna sem verðtryggingin reiknast eftir, þannig að það blandist engum hugur um hvaða áhrif frumvarpið hefur í þeim efnum.

En það er auðvitað eitt af því neikvæða í okkar innra skipulagi að minnstu breytingar á sköttum geta orðið til þess að hækka skuldir heimilanna verulega yfir eina nótt. Ég held að eðlilegt sé að menn hafi efasemdir um og vari við því fyrirkomulagi. Ég held að það kerfi verðtryggingar sé óhjákvæmilegt að við með tíð og tíma tökum til endurskoðunar enda eigum við almennt í efnahagsmálum að hverfa frá séríslenskum lausnum eins og sú lausn er. Ekki hefur það sýnt sig að séríslenskar lausnir hafi reynst farsælli en almennar lausnir í efnahagsmálum.