141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þó svo að ræða hv. þingmanns batnaði eftir því sem á hana leið hef ég sjaldan heyrt nokkurn mann hreykja sér jafnmikið yfir jafnlitlu og þegar hann talaði um árangur núverandi ríkisstjórnar. Því miður eru þessi fjögur ár ár hinna glötuðu tækifæra, sérstaklega í ríkisfjármálum þar sem menn hafa farið í flatan niðurskurð sem er allra versti niðurskurðurinn. Við munum finna fyrir enn meiri vandræðum en við sáum fram á á sínum tíma í viðkvæmum greinum eins og heilbrigðismálum, menntamálum og öðru slíku. Það er hægt að fara vel yfir það og þykist ég nú þekkja nokkuð til.

Virðulegi forseti. Ég sé heldur ekki hvernig hv. þingmaður getur talað eins og skattahækkanirnar hafi bara verið á rosalega ríkt fólk sem geti alveg borgað. Við erum með eignarskatt sem kemur mjög illa niður á þeim sem hafa engar tekjur en eiga einhverjar eignir eins og húseign og annað slíkt. Settur var eignarskattur, auðlegðarskattur, á allar tekjur nema lífeyrisréttindi þannig að þeir sem eiga eignir og réttindi í opinberu lífeyrissjóðunum sleppa vel en það fólk sem varð að búa sér til sinn eigin lífeyrissjóð, m.a. í húseign og öðru slíku, og það fólk er til, verður núna að selja eignir þegar það getur ekki aflað sér tekna, getur ekki farið aftur inn á vinnumarkaðinn. Mér finnst ekki að hv. þingmaður geti talað þannig um þetta fólk svo að við tökum bara eitt dæmi.

Virðulegi forseti. Ég var að vonast til þess að hv. þingmaður mundi taka stóra málið alvarlega því að hann á að þekkja það vel, ég veit að hann gerir það, en hv. þingmaður talar um óstöðugleikann af léttúð. Hv. þingmaður veit að gerðir voru skriflegir samningar sem á að svíkja. Hv. þingmaður veit að núverandi ríkisstjórn setti ákveðnar leikreglur varðandi erlendar fjárfestingar sem síðan voru sviknar. Núverandi hæstv. forsætisráðherra talaði um þjóðnýtingu í fjölmiðlum, sem fór um allan heim. Hv. þingmaður veit að við horfum upp á (Forseti hringir.) að fjárfesting er í lágmarki. Finnst hv. þingmanni pólitískur óstöðugleiki (Forseti hringir.) bara smámál, virðulegi forseti?