141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er pólitískur óstöðugleiki ekkert smámál. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að tekist hefur að vinna úr vandanum í ríkisfjármálum sem við blasti. Hitt var óhjákvæmilegt, að efnahagshruni í heilu samfélagi fylgdi nokkur pólitískur óstöðugleiki. En að tala hér í ræðustólnum eins og hv. þingmaður gerði áðan, um grískt ástand, er auðvitað fjarri öllum sanni. Þó að hv. þingmanni, sem er fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, kunni að finnast eitt og annað á niðurskurðarhliðinni ef til vill mega fara betur, ég skal ekki um það dæma, þar þurfti að taka margar ákvarðanir við erfiðar aðstæður, þá hefur einfaldlega tekist að endurreisa tekjuhliðina með satt að segja alveg ótrúlegum hætti þannig að eftir er tekið um heim allan. Það er auðvitað vegna þess að menn hafa haft til þess þrek og kraft að leggja þær byrðar á þá sem hafa efni á því að standa undir þeim, á stóreignafólk, á hátekjufólk.

Þessi eignarskattur leggst vel að merkja á innan við 5% af eignamesta fólkinu í landinu. Það eru sannarlega ekki neinir sem eru í þörfum fyrir ölmusur. Skattar á auðlindir, eins og veiðigjaldið og aðrir slíkir stórir póstar, hafa gert að verkum að tekist hefur að hlífa venjulegu launafólki, lágtekjufólki og meðaltekjufólki við skattahækkunum.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn sett til forustu nýja leiðtoga sem boða að helsta verkefnið í íslenskum stjórnmálum sé að lækka skatta. Ég tel að sú upplifun Sjálfstæðisflokksins að pólitíska verkefnið á Íslandi sé að lækka skatta sé svo fjarri þeim efnahagslega veruleika sem blasir við Íslandi að það væri beinlínis hættulegt að setja slíka stjórnmálamenn til forustu í landinu.