141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta ræðu.

Hann talaði um séríslenska lausn og mig langar til að spyrja hann hvort það sé algengt í heiminum þegar þjóðir lenda í hruni að þær reyni að skattleggja sig út úr því. Sem sagt þegar fyrirtæki og einstaklingar eru illa laskaðir eftir hrun þá sé reynt að kreista út úr þeim meiri tekjur fyrir ríkissjóð, og hvort það sé skynsamlegt að fara í niðurskurð þegar atvinnuleysi er vaxandi allt í kring þannig að fólk fer í rauninni — af því að niðurskurðurinn hjá ríkinu felst yfirleitt í uppsögnum á fólki — af launaskrá hjá ríkinu yfir á atvinnuleysisbætur, þ.e. aftur á launaskrá hjá ríkinu. Og hvort hann sé sannfærður um að þessi séríslenska lausn, að reyna að skatta sig út úr hruninu, hafi verið rétt, hvort það hefði ekki verið betra að reyna að stækka kökuna með því að lækka skatta, með því að gera allt atvinnulífið liprara í staðinn fyrir að flækja skattkerfið út í hið endalausa.

Hvað segir þá hv. þingmaður um að hagvöxtur er minni en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði ráð fyrir, töluvert mikið minni? Hvað segir hann um að fjárfesting er í algjöru lágmarki? Hvað segir hann um það að enn er halli á ríkissjóði 2013 þó að hann ætti ekki að vera neinn samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hvað segir hann um það að í fjárlagafrumvarpinu eru gífurleg göt sem menn hafa ekki tekið á, Íbúðalánasjóður, LSR o.s.frv.? Og hvað segir hann um það að vaxtagreiðslur ríkissjóðs hafa farið mjög vaxandi og nema núna 60 milljörðum nettó, 80 milljörðum brúttó? Hvað segir hann um þetta?

Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Þekkir hann Laffer-kúrfuna?