141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástandið á Íslandi var auðvitað verra en víðast hvar en þó ekki einsdæmi. Í okkar heimshluta fóru þjóðir tvær ólíkar leiðir, Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Það má í meginatriðum segja að fjögur af þessum átta ríkjum hafi farið velferðarríkisleiðina með fremur háu skattstigi en mjög samkeppnishæfu umhverfi fyrir atvinnulíf eigi að síður þó að fyrirtæki greiði talsvert háa skatta. Þetta eru Finnland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Hins vegar voru Ísland, Eistland, Lettland og Litháen sem trúðu á kenningarnar um Laffer-kúrfuna, eins og margar aðrar nýfrjálsar þjóðir, að þeim mun lægri sem skattarnir yrðu þeim mun meiri yrði hinn efnahagslegi uppgangur og þar fram eftir götunum. (Gripið fram í.)

Hvaða ríki voru það sem fóru sterk í gegnum hina alþjóðlegu efnahagslegu erfiðleika og búa við best lífskjör og hafa haft mestan framgang síðan þessir erfiðleikar gengu yfir? Það eru ríkin sem innheimtu fremur háa skatta og innheimta nú sennilega hæstu skatta í heiminum en hafa líka á að skipa öflugasta og samkeppnishæfasta atvinnulíf nokkurs staðar. Ísland, Eistland, Lettland og Litháen, sem reyndu lágvaxtastefnuna, fóru hins vegar öll mjög flatt og þar urðu hin efnahagslegu áföll gríðarlega mikil. Mér finnst vera löngu kominn tími til að hv. þm. Pétur H. Blöndal hugsi aðeins um þennan lærdóm og endurmeti sjónarmið sitt í þessu sambandi.