141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hinn svokallaða bandorm sem snýr að fjárlögunum og tekjuhlið þeirra. Það er margt við það mál að athuga. Fyrst ber að nefna hversu seint málið kemur fram. Núna er 5. desember og einungis örfáir dagar eftir af störfum Alþingis og margar spurningar sem brenna á alþingismönnum í þeirri umræðu. Við beindum fyrirspurnum fyrr í dag til hæstv. fjármálaráðherra. Þar kom ýmislegt í ljós sem við þurfum að skoða betur. Við spurðum grundvallarspurninga líkt og hvaða áhrif allar þær gjaldahækkanir sem mælt er fyrir í frumvarpinu mundu hafa á skuldir heimilanna í landinu. Hækkunin á tóbakinu mun til að mynda ein og sér hækka skuldir heimilanna um 3 milljarða. Hún mun hækka verðlag sem fer út í verðtrygginguna og verðtryggðu lánin og það mun enn hækka skuldastabba heimilanna í landinu þvert á það sem við framsóknarmenn og aðrir í minni hlutanum á þingi höfum talað fyrir, sem er það markmið að lækka skuldir heimilanna í landinu.

Það kom fram að á fundi efnahags- og viðskiptanefndar hafi ráðuneytið verið spurt út í áhrif þeirra tillagna, þ.e. hvað lánin mundu hækka mikið því ég nefndi einungis einn þátt sem er hækkunin á tóbakinu. Þá kom í ljós að slík úttekt hefur ekki verið gerð og liggur ekki fyrir. Það er náttúrlega óviðunandi með öllu að bjóða Alþingi upp á það af hálfu ráðuneytisins að leggja fram frumvarp sem er svo vanbúið að ekki sé hægt að svara slíkri grundvallarspurningu, hver áhrifin eru á skuldir þúsunda heimila.

Með því frumvarpi er meðal annars lagt til að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu úr 7% upp í 14% og á það að skila ríkissjóði 1,1 milljarði kr. Sérstök hækkun á tóbaksgjaldi á að skila ríkissjóði 1 milljarði kr. Vörugjald á bílaleigubíla á að færa nær almennu vörugjaldi á fólksbifreiðar og á að skila 0,5 milljörðum kr. og síðan er kveðið á um áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði sem á að skila ríkissjóði 1,5 milljörðum kr., svo fátt eitt sé nefnt.

Það er ýmislegt við frumvarpið að athuga, eins og ég sagði áðan. Við höfum talað fyrir því að minnka vægi verðtryggingar í samfélaginu, það að t.d. hækkun á kaffi í Brasilíu kalli á að byrðar heimila aukist um hundruð eða milljarða kr. vegna áhrifa kaffisins á verðlagsvísitöluna. Eða þá að þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka verð á tóbaki svo um munar, og það er ekki í fyrsta eða annað skiptið sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir því, hefur sú hækkun ekki bara áhrif á fólk sem neytir vörunnar. Hún leggst ofan á verðtryggð húsnæðislán heimila sem hafa stökkbreyst eins og við þekkjum frá hruni og er ekki á það bætandi. Ég hélt að með stofnun nefndar sem átti að meta kosti þess að afnema eða draga úr vægi verðtryggingarinnar mundi maður ekki horfa upp á enn eina tillöguna frá ríkisstjórninni sem miðar í raun og veru að því að hækka verðbólguna, sem hefur þessi óæskilegu áhrif, án þess að koma með einhverjar aðrar aðgerðir til hliðar sem mundu draga úr vægi verðtryggingarinnar þegar kemur að þeim málum.

Það hefur mikið verið rætt hvernig ríkisstjórnin kynnti áherslur sínar sem snerta þá grundvallaratvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Fyrir síðustu alþingiskosningar töluðu vinstri grænir og samfylkingarmenn mjög fjálglega um uppbyggingu ferðaþjónustunnar vítt og breitt um landið. Ég man til að mynda eftir því að þegar við funduðum á Húsavík og ræddum um iðnaðaruppbyggingu þar var nefnt að menn ættu að ræða eitthvað annað á þeim fundum. Maður hélt að það væri þá kannski ferðaþjónustan, sá mikli vaxtarsproti sem hún hefur verið á undangengnum árum. En nú kom ríkisstjórnin fram og tilkynnti síðastliðið haust að setja ætti ferðaþjónustunni ný skilyrði og setja hæsta virðisaukaskatt í heimi á þá starfsemi, 25,5%. Heilmikil ólga átti sér eðlilega stað innan greinarinnar, að hækka skattmörkin úr 7% upp í 25,5 var mikið reiðarslag fyrir þá grein atvinnulífsins og hefur valdið því að ferðaþjónustuaðilar til að mynda í Borgarfirði og í Varmahlíð í Skagafirði hafa hætt við að byggja þar hótelrými vegna áætlana ríkisstjórnarinnar. Það setti í raun og veru líka bókanir og fleira í uppnám og mun valda ferðaþjónustunni heilmiklum skaða.

Reyndar dró svo ríkisstjórnin í land núna um daginn og tilkynnti að skattheimtan yrði einungis tvöfölduð, úr 7% í 14%, sem er gríðarleg hækkun engu að síður og mun valda atvinnugreininni ómældu erfiði við að halda henni í horfinu og standa undir þeirri fjárfestingu sem atvinnugreinin hefur áður lagt í á undanförnum árum.

Það hefur skapað heilmikil vandræði fyrir þá atvinnugrein. Ríkisstjórnin hefur svo sem farið fram með svipuðum hætti til að mynda gagnvart iðnaði og sjávarútvegi, með óábyrgum yfirlýsingum og í raun og veru glórulausum hugmyndum um breytingar á skattkerfinu. Ég trúði því varla þegar ríkisstjórnin kom fram með hugmyndir sínar að mönnum væri í raun og veru alvara með þeim. Það væri þá eitthvað sem þeir mundu hugsa um eftir tvö eða þrjú ár þannig að atvinnugreinin gæti undirbúið sig undir breytingarnar. Nei, þetta skal gera svona og hefur meðal annars valdið því að bókanir hjá stærstu hótelkeðju landsins, Icelandair-hótelum, eru 15% minni nú en fyrir ári síðan Það er ljóst að sá hringlandaháttur sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir þegar kemur að skattlagningu á ferðaþjónustunni, sem er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, hefur þegar valdið heilmiklum skaða.

Ég held að það sé líka eðlilegt að við spyrjum okkur að því hvað sú breyting mun kosta, þ.e. að flækja skattkerfið með því að bæta við nýju skattþrepi sem er 14% þrepið. Í raun og veru eru skattþrepin orðin fjögur þegar kemur að virðisaukaskatti: 0%, 7%, 14% og 25,5%. Það mun þurfa heilmiklar breytingar á bókhaldskerfum, væntanlega líka hjá skattinum, og erfiðara verður að yfirfæra þá hluti. Við getum tekið sem dæmi að ef viðkomandi rekur gistingu eða hótelþjónustu er verðið á hótelgistingunni með 14% skatt á meðan morgunmaturinn er seldur með 7% virðisaukaskatti. Oftar en ekki hafa hótel boðið upp á þá þjónustu í einum pakka þannig að það mun allt verða svifaseinna og erfiðara í framkvæmd. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir einfaldleika í skattlagningu en horfið er frá því með því að bæta við þessu aukavirðisaukaskattsþrepi. Það er eðlilegt að við spyrjum: Hvað mun breytingin sem hér er innleidd kosta til að mynda skattinn, embætti ríkisskattstjóra? Hvað mun það kosta atvinnugreinina með öllum þeim kerfisbreytingum og hvað mun það kosta ríkissjóð þegar kemur að því að einhverjir fara vafalaust að reyna að koma fjármunum undan skatti? Eftir því sem við höfum fleiri þrep í virðisaukaskattskerfinu eykst hættan á skattundanskotum og þar með fær ríkið mun minni tekjur en ella.

Það er annað sem snertir ferðaþjónustuna en það eru vörugjöld á bílaleigubíla þar sem á að taka inn hálfan milljarð af atvinnugreininni. Forsvarsmenn hennar hafa sagt að það muni jafnvel rústa atvinnugreininni. Hvað mun það leiða af sér? Fyrir vikið verður trúlega minni innflutningur á bílum, flotinn mun eldast og þar af leiðandi mun umferðaröryggi væntanlega minnka í einhverjum mæli ef fram heldur sem horfir. Það sem mér finnst skorta á í frumvarpinu sem við ræðum hér er að horfa til hvað breytingarnar kosta ef þær leiða til þess að hótelrýmum fjölgar ekki eins og verið hefði í óbreyttu kerfi? Eins og ég sagði eru menn að hætta við að byggja hótel norður í Skagafirði og í Borgarfirði, a.m.k. slá því á frest. Þannig er ríkið, sveitarfélögin og fjölmargir einstaklingar sem höfðu unnið við þá uppbyggingu að tapa tekjum. Við verðum af tekjum vegna þessara breytinga. Hvað munu þær þýða fyrir bílaleigufyrirtæki ef þau minnka umsvif sín í innflutningi á bílum? Það mun þá væntanlega skila sér í lægri vörugjöldum en ella. Mér sýnist að sá hluti málsins sé ekkert skoðaður þegar kostnaðarumsögn sem fjármálaráðuneytið lætur fylgja með frumvarpinu er lesið.

Það er margt sem er gagnrýnisvert og ég hef af mörgu að taka. Ég hef því miður ekki langan tíma, einungis 15 mínútur, til að fara yfir það umfangsmikla mál. Ég varð var við það í máli hæstv. ráðherra áðan að hún horfði dálítið í baksýnisspegilinn þegar kom að fjölgun ferðamanna á undangengnum tveimur til þremur árum, rétt eins og það væri eitthvert lögmál að slík þróun mundi halda áfram. Málið er að í íslenskri ferðaþjónustu eru menn ekki endilega að keppa á milli landshluta og bítast um ferðamanninn heldur erum við þar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Með því að hækka skattlagningu á þessa undirstöðuatvinnugrein, og þann mikilvæga hlekk sem bílaleigurnar eru líka, er verið að ráðast á samkeppnishæfni. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin hafa kallað sig sérstakan málsvara atvinnugreinarinnar og ég hélt einfaldlega að mönnum væri ekki alvarlega þegar álögurnar voru kynntar fyrst. Ég held að þær muni ekki skila þeim tilætlaða árangri sem mælt er fyrir í frumvarpinu vegna þess að einhvers staðar verðum við að segja stopp.

Það væri alveg hægt að skattleggja íslenskt atvinnulíf upp í 90% eða 100% en þá borgar sig einfaldlega ekki að reka fyrirtæki hér á landi. Einhvers staðar verða menn að segja stopp þegar kemur að hækkun gjalda og skatta gagnvart atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Hér er einfaldlega gengið allt of langt og þessi breyting er tilkynnt með allt of stuttum fyrirvara og mun hafa varanleg áhrif á starfsemi ferðaþjónustunnar í landinu strax á næsta ári.

Það mun líka hafa þau áhrif að fyrirtækin þurfa jafnvel að draga saman og þannig mun störfum ekki fjölga eins mikið. Ég hélt að við værum nær daglega á Alþingi að ræða þann vanda og það böl sem atvinnuleysið er, þar sem fólksflóttinn úr landi er, en þegar við horfum til þeirrar atvinnugreinar sem þó er í lagi og hefur verið í vexti á að hefta sóknina sem hefur einkennt ferðaþjónustuna á undangengnum árum. Ég hvet efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og þá þingmenn sem þar sitja til dáða, til að snúa ofan af þeirri vitleysu sem um ræðir. Það er allt of hart gengið fram með allt of stuttum fyrirvara sem mun leiða af sér að sú glæsilega atvinnugrein sem ferðaþjónustan er og þau miklu tækifæri sem við höfum séð hringinn í kringum landið, sem felast í því að byggja hótel, byggja þannig upp atvinnustarfsemi og fjölga ferðamönnum á viðkomandi stöðum, mun í einhverjum tilvikum því miður vera í uppnámi. Það er ekki bara ég sem held því fram, líka þeir sem best þekkja til innan ferðaþjónustunnar og þeir sem reka bílaleigurnar í landinu. Ég tel einfaldlega að þeir sem reka fyrirtækin viti betur hverjir hagsmunirnir eru sem liggja að baki heldur en ríkisstjórnin sem leggur frumvarpið fram. Ég vonast til þess að á næstu dögum muni efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fara mjög vandlega yfir málið og hrinda þeim áformum í framkvæmd sem hér er mælt fyrir. Ég trúi því ekki að meiri hluti sé fyrir því á Alþingi Íslendinga að fara svona fram gagnvart ferðaþjónustunni í landinu. Þessi ræða sneri nær eingöngu að þeim þætti frumvarpsins þannig að ég óska eftir því við frú forseta að ég verði settur aftur á mælendaskrá til að ræða önnur mál sem snerta frumvarpið sem við ræðum hér.