141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á því að heyra sjónarmið hv. þingmanns vegna þess að hann er með drjúga þingreynslu og hefur starfað lengi að félags- og stjórnmálum. Hv. þingmaður talar mikið um ferðaþjónustuna. Hvernig kemur hún sér í því stóra kjördæmi sem hann er úr? (Gripið fram í: Norðaustur.) Norðausturkjördæmi. Það er alveg að fara að koma að því að ég muni í hvaða kjördæmi hv. þingmaður er. Ég veit hins vegar að hann er frá Siglufirði og fór í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki þannig að það er ekki eins og ég viti ekkert um hv. þingmann. [Hlátur í þingsal.] Menn skyldu ekki gera lítið úr því. Og var aðstoðarmaður þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra á þeim aldri sem við hinir vorum bara nýkomnir með bílpróf, en það er önnur saga. Ég veit ekki betur en hann hafi staðið sig prýðilega í því starfi.

Aðalatriði málsins er þetta: Nú tala menn svolítið eins og aðkoman sé svo gríðarlega góð og þá sérstaklega að ferðaþjónustunni. Mér finnst menn tala svolítið fjálglega um það og menn hafa komið með tölur um afkomu stærstu hótelanna hér í Reykjavík og annað slíkt, en hvernig lítur hv. þingmaður á þetta úti á landi? Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir þá erum við að sjá vaxtarbrodda koma upp í ferðaþjónustu. Við erum að sjá ofsalega mikið þolinmæðisverk, ég segi eins og er um mörg fyrirtæki sérstaklega gistihús og hótel sem skipta mikið um eigendur í gegnum árin og áratugina. Hv. þingmaður þekkir þetta betur. Hvernig kemur þetta honum fyrir sjónir? Er það þannig að búinn sé að vera slíkur stórgróði í ferðaþjónustunni í hans kjördæmi, og annars staðar þar sem hann þekkir til á landsbyggðinni, að nú sé kominn tími til að fækka ferðamönnum þannig að þetta fólk hafi ekki allt of mikið að gera?