141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál verður áhugaverðara eftir því sem þessari umræðu vindur fram. Af því að hv. þingmaður á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins hjó ég eftir því að á fundi, sem ég held að hafi verið haldinn í morgun, (Gripið fram í: Já.) hafi komið fram að fyrirtæki í ferðamennsku hafi vegna þeirra breytinga sem ríkisstjórnin ætlar að keyra í gegnum þingið núna fyrir jól hætt við að byggja hótel í Borgarfirði og Skagafirði. Trúlega má nefna fleiri staði.

Allar líkur eru til að þessi uppbygging á sviði ferðaþjónustunnar hefði leitt af sér fleiri störf og meiri umsvif í samfélaginu. Við höfum líka heyrt að vegna þessa frumvarps ríkisstjórnarinnar hafi menn hætt við nokkrar ráðstefnur sem þýða kannski að þúsundir ferðamanna koma ekki til landsins. Hv. þingmaður er vel töluglöggur maður og nú spyr ég hann: Er ekki hægt að leggja á einhverjar vogarskálar hvað þessi hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gagnvart þessari atvinnugrein kostar? Erum við ekki á þessu hausti búin að tapa gríðarlega miklum fjármunum sem felst í því að færri ferðamenn koma til landsins og minni uppbygging á sér stað á fjölmörgum stöðum hringinn í kringum landið? Þannig gætu þá fleiri verið á launum, fleiri borgað skatta og færri verið á atvinnuleysisskrá. Er þetta ekki bara skýrt dæmi um enn einn hringlandahátt ríkisstjórnarinnar sem tengist undirstöðuatvinnugreinum þessa lands?