141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er rétt, það var á fundi í morgun sem stjórnarandstaðan leyfði góðfúslega að yrði haldinn. Ég minnti á hvað hæstv. ráðherrar Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon hefðu sagt fyrir svo sem tíu árum ef menn hefðu látið sér detta í hug að ræða mál í nefndum þingsins sem ekki var búið að ræða í þingsölum. Ég tel að minnsta kosti að það hefðu orðið mikil læti. En af því að núverandi stjórnarandstaða er svo samningalipur og vinnur með ríkisstjórninni í öllum góðum málum var þetta samt samþykkt.

Á fundinum kom ýmislegt fram, eins og til dæmis það sem hv. þingmaður nefndi, að bókunum hefur fækkað og að menn eru búnir að afturkalla ráðstefnur sem þeir ætluðu að halda. Það kom líka fram hjá einum aðila sem rekur hótel að bandarísk ferðaþjónustukeðja hefði haft samband við hann og sagt að hún gæti bara ekki átt viðskipti við hann framar vegna þess að samkvæmt neytendalögum mætti ekki hækka gjaldið eftir á. Hann getur ekki tekið svona mikla hækkun úr eigin vasa, þ.e. selt þjónustuna á óbreyttu verði, þannig að vissulega hefur þetta svona áhrif úti um allt. Þess vegna þurfa menn að gæta sín dálítið. Fyrstu fréttir um að þetta ætti að hækka upp í 25,5% voru högg fyrir atvinnugreinina og öll viðskiptin. Menn spyrja sig í furðu: Getur verið að það sé lagt fram frumvarp í desember sem á að taka gildi í maí þegar ferðaþjónustutímabilið byrjar og það er búið að gera alla samninga fram í tímann? Getur það verið? Þetta kennir okkur að við þurfum að hugsa svona tekjuöflun miklu lengra fram í tímann og ég held að þegar ný ríkisstjórn tekur við þurfi hún að huga að því að einfalda þetta kerfi (Forseti hringir.) allverulega.