141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst svara hv. þingmanni um ríkissjónvarpið okkar, tek undir þau fallegu orð sem hv. þingmaður lét falla um útvarpsgjaldið, þann ágæta lið sem Rás 1 er, en ég er eindreginn talsmaður ríkissjónvarpsins þó við getum haft ýmsar skoðanir á því hvernig sá miðill er starfræktur eins og gengur. En mér fannst hv. þingmaður vera hálfklaufalegur í ræðu sinni að nefna ekki þá frómu sjónvarpsstöð ÍNN þar sem hann stýrir gríðarlega vinsælum þætti sem heitir Svartar tungur. Það er reyndar svo að eftir að ég hætti í þeim þætti var honum breytt í matreiðsluþátt, nýjar áherslur sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom með í sjónvarpsþáttagerð á ÍNN en sú stöð á náttúrlega allt gott skilið.

Það brenna á mér fjölmargar spurningar sem ég vildi beina til hv. þingmanns. Á þingflokksfundi í dag, þegar við vorum að fara yfir fjárlögin, sáum við að verja á 10 millj. kr. til forsætisráðuneytisins til að innleiða kynjaða hagstjórn. Við höfum svo sem heyrt þetta á undangengnum tveimur eða þremur árum. Þess vegna fannst mér dálítið athyglisvert þegar hv. þingmaður ræddi um fjársýsluskattinn áðan, í ljósi þess að um 80% af bankastarfsmönnum í útibúum vítt og breitt um landið eru konur, að sá skattur sem leggst á laun mun þá sérstaklega bitna á konum í þeirri atvinnugrein. Ég spyr hvort honum finnist þetta ríma við þá kynjuðu hagstjórn sem ríkisstjórnin talar um á tyllidögum og hvort hann gæti ímyndað sér hvað sérfræðingurinn sem ráðinn yrði í forsætisráðuneytið mundi segja um aðgerð að þessu leyti til sem fjallar náttúrlega um kynjaða hagstjórn og hvernig vinnumarkaðurinn er samsettur.