141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég virði það við hv. þingmann að standa ekki í auglýsingamennsku héðan úr ræðustól Alþingis. Það er trúlega hluti af nýju siðareglunum að slíkt þyki ekki tilhlýðilegt. Ég minni á að þátturinn Svartar tungur er sýndur á ÍNN kl. hálftíu á þriðjudagskvöldum svo að ég komi því á framfæri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í það mikilvæga mál sem við ræðum hér og það eru áhrif þessa frumvarps á ferðaþjónustu og hvernig yfirvöldin umgangast það mikla vald sem þeim er veitt í lýðræðislegum kosningum. Finnst hv. þingmanni það sæmandi að við skulum núna 5. desember vera að ræða um tvöföldun á skattheimtu á gistingu innan ferðaþjónustunnar sem á að koma til framkvæmda 1. maí á næsta ári? Í millitíðinni þurfa skattyfirvöld að breyta hugbúnaði sínum, atvinnugreinin þarf að gera það í heild sinni. Sú sama atvinnugrein er að stórum hluta búin að selja gistingu allt næsta sumar og þarf þar af leiðandi að bera kostnaðinn af hækkuninni sjálf. Ekki getur hún flutt þetta út í verðlagið vegna þess að nú þegar er búið að selja þessi herbergi.

Finnst hv. þingmanni framkoma stjórnvalda í garð þessarar atvinnugreinar einfaldlega í lagi? Má ekki heimfæra þessi vinnubrögð yfir á aðrar atvinnugreinar í landinu, til að mynda hvernig stjórnvöld hafa komið fram gagnvart íslenskum iðnaði eða íslenskum sjávarútvegi? Mjög frjálslegar yfirlýsingar hafa leitt til þess að heilmikill óstöðugleiki hefur einkennt starfsumhverfi þessara atvinnugreina. Sjáum við ekki að nú í lok kjörtímabilsins lendir ferðaþjónustan í þessum óvönduðu vinnubrögðum sem verður til þess að störfum mun fækka í atvinnugreininni, eða alla vega ekki fjölga eins og til stóð.