141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka andsvarið, virðulegi forseti. Ég ætla að lesa beint upp úr greinargerðinni svo það sé skýrt hvað ég er að fara, með leyfi forseta:

„Stór hluti, eða um 95%, af því flugvéla- og þotueldsneyti sem flutt er til landsins er selt á flugvélar með áfangastað í erlendri höfn og hefur gjaldið því verið endurgreitt af þeim hluta.“ — Það er búið að taka þá álagningu út eins og ég fór inn á áðan. — „Innanlandsflug hefur hins vegar borið gjaldið frá gildistöku laganna. Þann 1. janúar 2012 féll innanlandsflug undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins (EU ETS) með losunarheimildir og þurfa flugrekendur í byrjun árs 2013 að standa skil á losunarheimildum með gróðurhúsalofttegundir vegna starfsemi sinnar. Þar sem kolefnisgjald er lagt á aðföng í formi kolefnis en viðskiptakerfi Evrópusambandsins leggur gjald á útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna sama kolefnis er lagt til að innheimta gjaldsins vegna þessara aðila verði felld niður. Gert er ráð fyrir að sú breyting ein og sér kosti ríkissjóð um 35 millj. kr.“

Áður en ég held ræðu mína í þessari umræðu ætla ég að finna út hvað ríkisstjórnin taldi að hún hefði miklar tekjur af álagningu kolefnisgjaldsins þegar þessi tillaga kom fyrst fyrir þingið, þær hröpuðu náttúrlega mikið vegna þess að einungis var lagt á innanlandsflugið en í nefndarálitinu er það látið líta út fyrir að um eðlilega endurgreiðslu sé að ræða. En svo er alls ekki, vegna þess að ef atvinnugrein er tvísköttuð fyrir sömu gjöld, eins og er verið að gera, þá á viðkomandi fyrirtæki að sjálfsögðu skíra endurgreiðslukröfu á ríkið eða jafnvel skaðabótaskyldu ef lögunum er ekki breytt. Þess vegna segi ég, það er dæmalaust við þurfum að standa hér ár eftir ár og breyta þessum skattálögum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) einungis vegna þess að tillögurnar eru vanhugsaðar í upphafi og engin víðsýni eða framtíðarsýn er í þeim.