141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni og það sem meira er, þetta var alveg vitað. Það var alveg vitað að við værum að fara inn í ETS-kerfið og verið væri að fara að tvískatta. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður benti á byggir ETS á því að útblástur er skattaður en það eru aðrar tegundir af framleiðslu þar sem aðföng eru sköttuð en flug flokkast ekki undir það. Það sem þetta hefur gert er að flugvélaeldsneyti er orðið allt of dýrt á Íslandi sem hefur leitt til margvíslegra vandamála, meðal annars þeirra að áætlunarflug á smærri staði hefur liðið fyrir það og ríkið hefur þurft að taka úr hinum vasanum til að styrkja flug til að forða því frá gjaldþroti. Alla heildarhugsun vantar því í þetta.

En hafandi sagt þetta þá er virðingarvert að menn skuli snúa frá villu síns vegar, það er virðingarvert. En menn eiga auðvitað að láta sér þetta að kenningu verða og ana ekki út í þá vitleysu sem hækkun virðisaukaskatts á gistingu er. Auðvitað á það að vera þannig svo að á næsta ári þurfi ekki að fara að draga það til baka út af einhverjum áhrifum sem fólk gerir sér enga grein fyrir í dag. Vegna þess að öll skattlagning hefur afleiðingar. Það er vonandi að síast núna inn hjá stjórnarliðum eða ríkisstjórninni.