141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Í því sem við ræðum hér stendur að sjálfsögðu upp úr mikil hækkun á gjöldum og sköttum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er að þetta er búið að vera svona frá kosningum 2009, hreina vinstri stjórnin hefur sýknt og heilagt hækkað gjöld og skatta. Á meðan hefur allt of lítill vöxtur orðið í atvinnulífinu, þ.e. störfum hefur fjölgað of lítið og fjárfesting verið allt of lítil. Þá velti ég fyrir mér og spyr hv. þingmann hvort það sé eðlilegt að áætla að þarna sé samspil á milli, fyrir utan þá óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað öllu atvinnulífi í landinu er sú árátta að skapa óvissu um rekstrarumhverfið, hækka gjöld, auka kostnað, hræra í sköttum, hvort það geri það ekki að verkum að fyrirtæki veigra sér við að fara í fjárfestingar og fjölga störfum sem mundu leiða til meiri tekna til ríkisins og þar af leiðandi væri minni ástæða til að hækka skatta.

Þessari spurningu fylgir þá önnur, hvort þetta sé í raun ekki það sem við þekkjum til þessara svokölluðu hreinu vinstri stjórna þar sem vantar til dæmis hina hófsömu miðjumenn eða einhverja sem eru örlítið hægra megin til að tryggja að menn fari ekki svona nálægt brúninni vinstra megin og detti fram af. Við þekkjum öll sögur úr heiminum þar sem menn hafa farið út af hægra megin en í vinstri stjórnir vantar að sjálfsögðu líka hina hófsömu miðjumenn til að hafa vit fyrir þeim.

Það eru sem sagt þessar tvær spurningar, um atvinnulífið og hvort þetta sé (Forseti hringir.) einkenni á vinstri stjórnum.