141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það sem er að gerast hjá ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum er sorglegt dæmi um áhrif þeirrar stefnu sem rekin er af núverandi ríkisstjórn. Auðvitað hafa ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis áhrif, bæði á sviði skattamála og annars laga- og starfsumhverfis fyrirtækja. Fyrirtæki geta lent í vandræðum vegna þeirra ákvarðana sem teknar eru hér innan dyra um skattamál og rekstrarumhverfi og það er það sem bæði ég og hv. þingmaður höfum verulegar áhyggjur af í sambandi við sjávarútvegsmál og sjávarútveginn, að sá sérstaki og sérkennilegi leiðangur sem núverandi ríkisstjórn hefur verið í gegn sjávarútveginum muni koma niður á greininni. Það hefur legið í augum uppi að mínu mati frá upphafi að svo yrði og nú erum við kannski farin sjá raunáhrifin koma í ljós, því miður.

Auðvitað ber maður ugg í brjósti um að því sé ekki lokið vegna þess að hæstv. atvinnuvegaráðherra hefur veifað frumvörpum, bæði nú á síðustu dögum og reyndar fyrr, sem ekki hafa boðið sjávarútveginum upp á kræsilega framtíð. Svo stoppar málið í ríkisstjórnarflokkunum af því að sumum hv. stjórnarliðum finnst ekki gengið nógu langt gegn sjávarútveginum. Það er margt sem vekur ugg í þessu sambandi.

Þetta er eitt dæmi og í þessu frumvarpi eru önnur dæmi, t.d. um ferðaþjónustuna þar sem tímabundnar aðstæður hafa verið henni hagstæðar (Forseti hringir.) og hagfelldar (Forseti hringir.) og þá á þegar í stað að hjóla í hana með aukinni skattheimtu.