141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að áhrif skattalagabreytinga og reyndar annarra lagabreytinga líka geta verið önnur og víðtækari en beinlínis er stefnt að. Það er ekki svo að hægt sé að fínstilla með einhverjum verkfræðilegum hætti hvað er hægt að kreista mikið út úr þessari atvinnugreininni og hinni án þess að gera ráð fyrir því að það hafi einhverjar afleiðingar, víðtækari afleiðingar, t.d. á vaxtarmöguleika innan viðkomandi greinar, á vilja manna til að fjárfesta o.s.frv.

Auðvitað er það svo að þegar lagabreytingar eru ákveðnar, ég tala nú ekki um skattbreytingar, kallar það á einhver viðbrögð, einhverjar breytingar, leiðir til þess að mál fara hugsanlega í annan farveg en ella hefði orðið. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um þetta.

Hvað varðar hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi í upphafi síns máls, og var einnig til umræðu hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, get ég alveg fallist á, og skal milda orðalag mitt frá því áðan, að sennilega hefur nú Framsóknarflokkurinn stundum haft mildandi áhrif á harða vinstri menn þegar hann hefur átt samleið með þeim í ríkisstjórn, ég tala nú ekki um þegar fyrir hendi er á þingi meiri hluti flokka sem báðir eiga mjög greinilega uppruna sinn í gamla Alþýðubandalaginu.