141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég ætla að stikla á því sem þar kemur helst fram áður en ég ræði aðeins þá þætti sem hafa verið mest í umræðunni.

Á tekjuöflunarhliðinni eru atriði eins og að virðisaukaskattur á gistiþjónustu fari upp í 14% og almennt tryggingagjald hækki um 0,3 prósentustig. Fleira kemur þarna inn eins og að vörugjald á bílaleigubíla hækki um helming, þ.e. það var algjörlega fellt niður árið 2000 og fer núna að hálfu upp í það sem er á bílum almennt. Þetta á að skila ríkissjóði um 8,4 milljörðum.

Breytingar verða á núverandi skattheimtu og útgjaldaráðstöfunum, þar á meðal framlenging á lögum um umhverfis- og auðlindaskatt, enn fremur framlenging á 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem hefur verið undir átakinu Allir vinna og hefur gengið mjög vel. Gjald á hreina eign lífeyrissjóða er fellt niður og er það mínus 1,6 milljarðar. Þetta hefur áhrif á tekjuhliðina upp á 2,8 milljarða. Enn fremur verður framlenging á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta sem þýðir 2 milljarðar og hækkun barnabóta upp á 2,5 milljarða sem hefur áhrif á útgjaldahlið upp á 4,5 milljarða.

Hér koma fram aðgerðir í tengslum við kjarasamninga. Vegna aðgerða stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á árinu er í fyrsta lagi lagt til að atvinnutryggingagjald verði lækkað um 0,4 prósentustig sem mun lækka tekjur ríkissjóðs um 3,9 milljarða. Þessir liðir hafa áhrif á tekjuhliðina um mínus 6,1 milljarð.

Við þetta bætist afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila sem gerir mínus 2,2 milljarða.

Hér er enn fremur talað um verðlagshækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám. Hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám nema 4,6% og eru í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi frá fyrra ári.

Ýmsar aðrar breytingar er hægt að nefna. Í fyrsta lagi er lagt til að tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds verði framlengdar um eitt ár, eða til ársloka 2013, þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Framlengingin nær einnig til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána. Ekki er gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni að öllu samanlögðu um 2,7 milljarða frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Þetta er í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir næsta ár.

Þarna eru þættir sem hafa verið mikið í umræðunni í kvöld, eins og hækkun á virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu, en talað var um í upphafi að sá virðisaukaskattur yrði samræmdur öðrum greinum í atvinnulífinu og færi upp í 25,5%. Nú er verið að milda þá leið og fara í nýtt skattþrep upp á 14% sem taka á gildi 1. maí 2013. Ég held að það sé mjög góð ákvörðun.

Samtök ferðaþjónustunnar komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun og þar voru þessi mál rædd. Ég velti því upp þar hvort ferðaþjónustan væri ekki tilbúin að skoða nýtt skattþrep í greininni og taka þá aðra þætti inn í sem eru ekki skattlagðir í dag. Þá nefni ég til dæmis fólksflutninga, hestaleigur, „river rafting“ og ýmsa þætti sem eru aukabúgrein hjá ferðaþjónustunni en bera engan virðisaukaskatt. Það er ekki hægt að segja að einhver atvinnugrein sé áfjáð í að fá að borga virðisaukaskatt en mér finnst rétt að allt sé undir þegar horft er til þess að ferðaþjónusta standi jafnfætis öðrum atvinnugreinum, að ekki sé verið að mismuna atvinnugreinum eftir því hvers kyns starfsemi fer fram, og að þrýstingur sé á að atvinnurekstur falli almennt undir sama virðisaukaskattsþrep. Miðað við þau viðbrögð sem ég fékk við þessum vangaveltum fannst mér Samtök ferðaþjónustunnar taka því ágætlega að þetta yrði skoðað í stóra samhenginu, hvort hægt væri að finna þarna einhvern milliveg til framtíðar sem skilaði ríkissjóði sambærilegum tekjum. Ég held að nauðsynlegt sé að gera það.

Það hefur því miður loðað við ferðaþjónustuna í gegnum árin að mikið er um svarta starfsemi innan greinarinnar. Innan ferðaþjónustunnar eru menn mjög ósáttir við það hve mikil svört starfsemi þrífst í greininni og ríkissjóður verður af miklum tekjum samhliða því. Það er ekki eingöngu við ríkissjóð að sakast í þeim efnum að ná ekki til þeirra sem bjóða slíka þjónustu og fara huldu höfði heldur verður ferðaþjónustan að leggja sig fram um það að ná til þessara aðila í greininni og fá þá upp á yfirborðið. Ég held að hún sé að vinna að því af fullum krafti. Ef það næst að halda utan um þessa svörtu starfsemi, sem virðist því miður vera að aukast mjög mikið, og ná henni upp á yfirborðið þá eru þar miklar tekjur sem koma í framhaldinu inn í ríkissjóð svo að það er allra hagur að ná í þá sem velja að fara þessa leið og koma ekki upp á yfirborðið og greiða sinn hlut til samfélagsins.

Ferðaþjónustan er auðvitað mjög mikilvæg, eins og hefur komið fram í máli manna, og ég held að menn þurfi ekki að vera óttaslegnir yfir að þessar hækkanir hafi þau miklu áhrif að bókanir til Íslands muni hrapa niður í kjölfarið. Þó að einhverjar hreyfingar hafi verið í þá átt á það kannski einhverja aðra skýringu en þá að þessi hækkun á virðisaukaskatti á gistingu skýri það til fulls. Við vitum að efnahagsástandið í Evrópu er ekki gott og fólk heldur jafnvel að sér höndum með að bóka ferðir, er hugsanlega seinna á ferðinni en verið hefur fyrir næsta ár að bóka ferðir. Ég held að við getum ekki sett samasemmerki við einhverjar hreyfingar í þá átt að ekki sé eins mikið bókað og á sama tíma í fyrra, eins og hefur komið fram í máli manna hér.

Við höfum líka rætt mikið um bílaleigurnar og mikilvægi þeirra og áhrif þeirra breytinga að láta þær greiða vörugjald frá því sem var. Ég hef vissulega áhyggjur af því að bílaleiga dragist eitthvað saman og hafi áhrif á hve mikið ferðamenn dreifa sér um landið. Bílaleigurnar eru lífæð landsbyggðarinnar til ferðaþjónustufyrirtækja og það skiptir ferðaþjónustu á landsbyggðinni mjög miklu máli að fólk geti nýtt sér bílaleigubíla á góðum kjörum og farið um landið og nýtt sér þá þjónustu sem þar er í boði. Ég hef þær áhyggjur en ég held að sú varfærna nálgun að fara rólega í breytingarnar og skoða hvernig mál þróast sé skref í rétta átt.

Í morgun voru okkur kynntar hugmyndir frá greininni sjálfri sem gætu skilað ríkissjóði að minnsta kosti álíka tekjum. Mér fyndist koma fullkomlega til greina að skoða þær tillögur af fullri alvöru ef hægt væri að fara öðruvísi að í tekjuöflun hjá greininni en með þessum hætti. Mér finnst það vera alveg þess virði að gefa því gaum og skoða það vel. Ég vil ekki sjá að þetta komi þannig niður á þeim geira sem bílaleigur eru að það verði til þess að menn fari síður lengri veg út á land til að nýta sér þá ferðaþjónustu sem hefur verið í mikilli uppbyggingu þar, þá er ekki alltaf verið að tala um einhver stór og mikil hótel heldur eru þar smærri aðilar, vaxtarbroddar víða um land, sem hafa náð miklum árangri á stuttum tíma.

Það sem mér finnst standa upp úr þessum ráðstöfunum í ríkisfjármálum er að það er verið að hækka barnabætur mjög mikið. Það skiptir heimilin í landinu miklu máli og barnafjölskyldur. Það er verið að framlengja sérstakar vaxtabætur um 2 milljarða sem skiptir líka miklu máli. Tryggingagjaldið lækkar um 0,11 prósentustig samanlagt og átakið Allir vinna heldur áfram sem skiptir menn miklu máli. Fólk getur líka haldið áfram að taka út séreignarsparnað, allt að 6 millj. kr. á einstakling. Aðstæður eru enn þannig að þörf er á því að fara í séreignarsparnaðinn með þessum hætti.

Samanlagt skila þessar ráðstafanir í ríkisfjármálum heimilum í landinu jákvæðri niðurstöðu nettó. (Gripið fram í: Nei.) — Jú, fyrir því hef ég fulla vissu. Þannig var það kynnt fyrir okkur í efnahags- og viðskiptanefnd og ég rengi ekki þá fulltrúa í fjármálaráðuneytinu sem lögðu það þannig upp, en sitt sýnist hverjum. Sumum er mjög illa við skatta þó að ég skilji aldrei andúð hægri manna á sköttum. (Gripið fram í: Miðjumanna líka.) Miðjumanna líka, segir einn miðjumaður. (Gripið fram í: Mikið rétt.) Ég hef heldur ekki skilið miðjuakstur sumra því að það er til vinstri umferð og það er til hægri umferð en ég hef aldrei farið til nokkurs lands þar sem miðjuumferð er í boði. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: En hvað …?) — Það kemur að góðum notum við vissar aðstæður en það er ekki til umræðu hér.

Svona er þetta og ég held að það sé full ástæða til að gleðjast yfir þeim árangri sem hefur orðið í ríkisfjármálum hér undanfarin rúm þrjú ár, enda hefur góður maður, Lars Christensen, forstöðumaður hjá greiningardeild Danske bank, gefið okkur ansi gott heilbrigðisvottorð um að við séum á réttri leið. Hann varaði okkur við (Forseti hringir.) hruninu, enginn hlustaði á hann en hann gefur þessari ríkisstjórn góð meðmæli og það veit á gott.