141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég er ekki á þeirri skoðun að ferðaþjónusta á Íslandi ætti að vera undanþegin virðisaukaskatti. Ég held að hún hafi alveg fulla burði til þess að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og bera eðlilega skatta. En ég tel að við eigum ekki að íþyngja henni meira en ástæða er til. Við verðum að horfa til þess hvar hún er stödd og hvernig gengur að byggja upp. Greinin hefur sem betur fer verið að eflast og styrkjast og ég held að hún geti alveg með góðu móti staðið jafnfætis öðrum atvinnugreinum í landinu. Við þurfum samt að vera á vakt og fylgjast með hvernig þessi mál þróast og ef ástæða þykir til eigum við að vera menn til að endurskoða einhverja þætti.