141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan í máli mínu hef ég á þessari stundu ekki sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því að það sé 15% færri bókanir á þessu ári en á síðasta ári hjá Icelandair. Eins og ég nefndi er auðvitað erfitt ástand í Evrópu og hefur það örugglega einhver áhrif á hversu snemma menn ákveða ferðalög fyrir næsta ár. En ég held að það sé langt í frá ljóst hver þróunin verður í þeim efnum.

Varðandi sjávarútveginn og þau mál er ekki komin reynsla á hvort fyrirtæki rísa undir veiðigjaldinu eða ekki og eins og við vitum er veiðigjaldið tekið af hagnaði fyrirtækja að frádregnum launum. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa farið á höfuðið allt frá því að ég man eftir mér, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, (Forseti hringir.) og svo mun verða um þau eins og önnur fyrirtæki að það geta því miður alltaf komið upp þær aðstæður að fyrirtæki falli.