141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við mjúku mennirnir höfum gjarnan áhyggjur af hörðu málunum, kannski ekki af hörðu efnunum, en hörðu málunum alla vega. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þá staðreynd sem ég hygg að hv. þingmaður hafi fengið ábendingar um líkt og sá er hér stendur, að bara í okkar kjördæmi þá veigra aðilar í ferðaþjónustu sér við að fara í framkvæmdir sem áætlaðar voru. Ég get nefnt í því sambandi mitt heimasvæði, Skagafjörð, og svo get ég nefnt Snæfellsnes og Grundarfjörð. Þar hafa menn hætt við að stækka gistipláss vegna óvissunnar sem nú ríkir, því að framkvæmdin stendur ekki undir sér verði virðisaukaskatturinn hækkaður.

Er hv. þingmaður ekki áhyggjufull yfir því að verði raunin sú, þ.e. hætti menn við stækkun á gistirými og aðrar framkvæmdir, dragist ferðaþjónustan úti á landi aftur úr vegna þess að það (Forseti hringir.) þarf nægilegt gistirými til þess að taka á móti gestum?