141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér hér að hafa ekki áhyggjur af drykkju landsmanna. Ég ætla að hafa áhyggjur af ýmsu öðru, (EÓÁ: Reykingum?) til dæmis reykingum, en læt hitt liggja á milli hluta. Það mega aðrir hafa áhyggjur af því og kannski hafa hægri menn meiri áhyggjur af því en ég. En varðandi listamennina er ég hlynnt því að heiðurslaun listamanna séu samræmd launum starfandi listamanna. (EÓÁ: Þrjár milljónir?) Þrjár milljónir eru nú ekki mikið í heila samhenginu og við lifum nú ekki á brauði einu saman, við lifum líka á listinni og ég sé ekki eftir þessum milljónum í list ef hún er góð.